Fátt er heilagt

ux-710Norðmenn eru tiltölulega þægilegt fólk í umferðinni enda væri allt farið til andskotans annars með þetta vegakerfi, það er á beinu hvaða land Chris Rea hafði í huga þegar hann samdi The Road to Hell. Kurteisi er eina vopnið á morgnana þegar akstur til vinnu skapar hreint Manhattan-ástand í og við 70.000 manna smábæi á borð við Sandnes.

Þrátt fyrir þetta eru landsmenn nokkuð hleypnir í umferðinni, manni er hleypt mikið þótt aðrir eigi réttinn og ég hleypi grimmt sjálfur. Eiginlega of mikið. En mér líður betur í lífinu almennt fyrir vikið. Sérstaklega eru þeir norsku þægilegir með að hleypa milli akreina. Þú gefur stefnuljós og bíllinn við hliðina dregur úr ferð og smeygir þér inn. Nema í gær.

Ég var kominn yfir það versta, út úr Sandnes og sloppinn gegnum E39-hringtorgið, hið sanna hlið helvítis frá 06:45 – 07:45 virka daga. Hjá flugvellinum í Sola kem ég þannig inn á veginn sem liggur til Tananger að ég verð alltaf að drulla mér strax yfir á hægri akgrein, ellegar neyðist ég til að beygja til vinstri út úr næsta hringtorgi og keyra veginn að flugvellinum sem ég hef því miður ekki oft ástæðu til að gera, næst verður það 12. október þegar ég sæki Brynjar Má Ottósson út á völl en hann kemur hingað í útskriftarferð að loknu vel heppnuðu tannsmíðanámi í Kaupmannahöfn. Meira um það síðar.

Þar sem ég dett inn á Tananger-veginn í gærmorgun kl. 07:09, minding my own business and feeling good (-E. Murphy) og gef mitt hefðbundna stefnuljós til hægri, kveður við nýjan tón. Ökumaðurinn á vínrauðum Renault hægra megin sýnir enga miskunn en heldur sínu striki og sígur að lokum fram úr mér. Næsti bíll hleypir strax.

Mikið var þetta ónorskt, hugsaði ég og skotraði af gömlum vana augunum að skráningarnúmeri þessa slordóna. Þar blasti þá við kunnuglegur fáni og stafirnir IS. Þegar ég las lengra blasti við númerið UX-710. Gat verið!!! Helvítis Íslendingar, ef vandræðin eru ekki til staðar búum við þau til! Ég er ekki einn um þessa skoðun, tilfæri hér SMS frá Henry, yfirmanni mínum, þar sem hann sat greinlega og horfði á Ísland rúlla Noregi upp í knattspyrnu að kvöldi 7. september: ” Helvetes islendinger. Trodde ikke det var plass til fotballbaner på den øya… Skål!”

Athugasemdir

athugasemdir