Fæði og flúr

gladmat1Gert er ráð fyrir að meira en 250.000 manns heimsæki hátíðina Gladmat sem nú stendur yfir hér í Stafangri og lýkur á morgun, laugardaginn 31. júlí. Þetta er eins konar Food & Fun Noregs og stemmningin mikil. Mörg hundruð aðilar af öllum stigum norsks matvælaiðnaðar kynna framleiðslu sína og stjarna hátíðarinnar er Gordon Ramsey sem þekktastur er fyrir hina kaldhæðnu þáttaröð Eldhús andskotans eða Hell’s Kitchen. Hann hefur messað hér fyrir fullu húsi dag eftir dag og jafnframt kennt saklausum börnum iðju sína. (MYND: Brot af hátíðarsvæðinu sem nær yfir nánast allan miðbæinn.)

Í dag át ég elg í fyrsta sinn en blessuðu dýrinu hafði verið umbreytt í svokallaða elgpølse í höndum Peders Åresvik sem rekur Åresvik Gard, matvælaframleiðslu sem á rætur sínar að rekja til Åresvikfjorden í fylkinu Møre og Romsdal sem er einhvers staðar í rassgati. Elgurinn smakkaðist reyndar ágætlega þótt ég hafi átt í fullu fangi við að meðtaka fyrirlestur Åresvik um hinar þrjár mismunandi reykingaraðferðir kjöts í Noregi.
gladmat2
Siv Karin Helland heitir kona nokkur sem er hvorki meira né minna en Noregsmeistari í barþjónustu. Hún og félagar hennar héldu uppi látlausri hanastélsblöndun í tjaldi merktu Norska barþjónasambandinu, eða Norsk bartenderforening eins og það heitir. Siv Karin bauð okkur upp á meistarastykkið sitt, hanastélið Sweet Miss Monroe, sem var hressandi og rétt rúmlega það. (MYND: Punktar hripaðir niður í spjalli við Noregsmeistara barþjóna.)

Eftir að ég hafði sporðrennt innbakaðri tyrkneskri kjötbollu einhvers staðar (Gladmat er að höfuðstefnu til hátíð norskra matvæla en aðrar þjóðir eru á kantinum) skelltum við okkur á húðflúrráðstefnuna Tattoo Convention sem haldin er við sama tækifæri hér í borginni. Ráðstefna er kannski ekki rétta orðið enda varð ég ekki var við langa fyrirlestra fræðimanna með illskiljanlega titla. Þarna glömruðu hins vegar tugir bleknála í samhljómi sem skapaði sérstaka stemmningu. Með reglulegu millibili var blekþakið fólk kallað á svið þar sem dómnefnd gaf því einkunn undir dynjandi lófataki.
tattoo1
Þarna mátti auk annarra sjá Isobel Varley, eða það litla sem sjá mátti af henni. Varley er heimsmethafi í húðflúri og varla sést nokkurs staðar í þessa miðaldra bresku konu fyrir skreytingum. Sjón er sögu ríkari. Meðal annarra snillinga á húðflúrstefnunni voru Casper frá Belgíu og Glenn Flesjaa sem kemur frá Sandnesi hérna við hliðina á. Báðir eru húðflúrlistamenn og sátu sveittir við að flúra ráðstefnugesti, sá fyrrnefndi með ennisljós að hætti námuverkamanna. Casper starfar á B52-húðflúrstofunni í Berlín og virðist óhætt að mæla með verkum hans. Til að fyrirbyggja misskilning tek ég fram að Jón Páll Halldórsson, áður kenndur við JP Tattoo, er eini flúrari veraldar sem nokkru sinni fær að reka nál í mig. (MYND: Við innganginn á Tattoo Convention, blaðamannapassi og horn koma rétta fólkinu langt.)
tattoo2
Þetta er síðasti pistill fyrir flutning á morgun. Nettenging á nýja staðnum er klár en dæmigerð tæknivandamál taka alltaf sinn tíma. Gert er ráð fyrir næsta pistli á mánudagskvöld verði ég ekki slefandi vanviti í spennitreyju á psykiatriske avdelingen hér við háskólasjúkrahúsið. Því miður bendir þó allt til þess. (MYND: Engin miskunn hjá Magnúsi – nálin látin vaða.)
tattoo3
Ég verð að slá botninn í þetta með gullkorni frá föður mínum lækninum sem hafði lesið pistil minn um rúmfataskipti á sjúkrahúsinu: Maður man nú vel eftir uppábúnum rúmum á vöktunum. Maður svaf nú ekkert værum svefni, a.m.k. ekki fyrstu vikurnar á hverjum stað. Ekki man ég eftir að hafa hugsað til þess hver bjó um rúmin. Svona er lífið. Segir allt sem þarf. (MYND: Isobel Varley í öllu sínu flúraða veldi.)

Athugasemdir

athugasemdir