Eyjarhaftið

dollararÁ morgun hefst formleg húsnæðisleit í Sandnes, eins konar Kópavogi sem gengur út úr Stavanger og hýsir rúmlega 60.000 manns. Auglýsing eftir leiguíbúð birtist á morgun og næstu fjóra daga í Stavanger aftenbladet. Ég skrifaði heljarinnar lýsingu, hámarkslengd smáauglýsinga í blaðinu sem er ellefu línur. Snúnast var að útskýra að íbúðin yrði að hafa minnst fimm metra langan vegg sem ætti horn að öðrum, minnst 2,5 metra löngum, vegna bókaskáps (orðalagið trenger veggplass minst 5,0 m + 2,5 m i vinkel for bokskap var talið segja allt í þeim efnum).

Birting í fjóra daga kostar 249 norskar krónur sem er nokkuð vel sloppið. Til að greiða þetta þurfti ég að mæta í Arion-banka í eigin persónu og framvísa þar staðfestingu frá blaðinu á að ég væri búinn að panta þessa auglýsingu og væri að fara að greiða fyrir hana (blaðið tekur ekki við greiðslu með kreditkorti, alla vega ekki frá Íslandi). Greiðslan var svo millifærð gegn 1.200 króna þjónustugjaldi, alls rúmar 6.500 krónur. Gott og vel.

Verður einhverjum hugsað aftur til 1988 og lengra? Gömlu haftaárin gengin í endurnýjun lífdaganna. Ég gleymi því ekki þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í stálinu og hamaðist fjórtán ára gamall með gorma og handlóð í kjallaranum í Garðabænum, soundtrack-ið úr Rocky IV á 200 desibelum í fermingargræjunum – að sjálfsögðu á kassettu! Samkvæmt bókhaldi mínu frá þessum tíma sem mér tókst að grafa hérna upp úr skúffunni var ég 175,5 cm á hæð og heil 57 kg 4. apríl 1988, sem sagt á leiðinni að verða hrikalegur.

Þessi tölfræði er þó útúrdúr. Ætlunin var að rifja upp þá píslargöngu sem það kostaði mig að panta eitt tölublað af vaxtarræktartímaritinu FLEX sem ég átti síðar eftir að kaupa grimmt í Bókabúð Braga við Hlemm. Áður en bóka- og blaðasalar tóku að flytja blöðin inn þurfti hins vegar að panta þau beint frá útgefanda vestanhafs. Það einfalda ferli var svona:

1) Ég skrifaði ritstjórnarskrifstofum FLEX bréf (svona bréf sem maður setti í umslag og fór svo með flugpósti til Bandaríkjanna og kom þangað einhverjum vikum seinna). Í bréfinu óskaði ég eftir að kaupa af þeim nýjasta tölublaðið og fór fram á að fá sendan reikning fyrir því í pósti.

2) Umbeðinn reikningur barst mánuði seinna ásamt kurteislegu bréfi frá útgefanda þar sem mér var þakkaður áhuginn.

3) Ég fór með reikninginn í Búnaðarbankann í Garðabæ og greiddi þar upphæðina í íslenskum krónum. Bankinn gaf út ávísun í dollurum (held að dollarinn hafi verið 38 krónur þarna), stílaða á útgefanda FLEX.

4) Ég póstlagði ávísunina vestur um haf aftur ásamt afriti af reikningnum.

5) Um það bil sex vikum seinna fékk ég tilkynningu frá Pósti og síma um að mín biði böggull á pósthúsinu í Garðabæ. Það reyndist rækilega bóluplastvarið umslag sem innihélt nýjasta tölublað FLEX sem þó var þriðja eða fjórða blaðið sem komið hafði út frá því að ég sendi bréf það sem greint er frá í lið 1).

Ferlinu, sem hófst að líkindum snemma í janúar, lauk seint í apríl að mig minnir. Ég á umrætt blað enn hérna niðri í geymslu ásamt reikningnum sem segir frá í lið 2). Atburðarásin í dag rifjaði upp fyrir mér þessa fyrstu pöntun mína á varningi frá útlöndum og ég velti því fyrir mér hvort íslenskt hagkerfi væri í raun komið í einn stóran ömurlegan hring og fast á ný í viðjum hafta og gerræðislegrar gjaldeyrisstjórnunar. Er þetta öll vegalengdin sem við skriðum á rúmlega 20 árum?

Hann skreið þá lengra sem sagt var frá í Morgunblaðinu einhvern tímann undir fyrirsögninni Skreið til Nígeríu.

Athugasemdir

athugasemdir