Eurovision

gledibankinnÉg var að sjá á vefmiðlum að framlag Íslendinga í Eurovision marði það í úrslit, rétt einu sinni síðasta lagið inn. Þetta er náttúrulega gaman. Þótt tónlistarstefnan í Eurovision höfði ekki beinlínis til mín (fyrir utan glæsilegt sigurlag Finna árið 2006!) hef ég nú fylgst með keppninni, svona með öðru auga, síðan þátttaka Íslendinga hófst í Bergen árið 1986, fyrir réttum 25 árum. Það er nú bara næsti bær við mig hérna í Stavanger. Ég verð nú samt að viðurkenna að ég hef nánast alltaf pínt mig í gegnum lagaflutninginn sjálfan til að fylgjast með atkvæðagreiðslunni sem oft hefur verið æsispennandi, til dæmis einmitt þegar Finnar rúlluðu þessu upp eftir harða keppni við nágranna sína Rússa.

Sennilega er engin ástæða fyrir Íslendinga til að örvænta þótt oft hafi þeir vermt 16. sætið og önnur neðri. Finnar voru að taka þátt í 45. skiptið þegar sigurinn féll þeim í skaut. Það er mikil þrautseigja. Fáir hafa væntanlega hugsað þá hugsun til enda hvað það hefði í för með sér ef Ísland ynni loksins í Eurovision. Það væri hreinlega útilokað að halda keppnina á Íslandi miðað við efnahag landsins eins og hann er nú svo væntanlega kæmi það í hlut þjóðarinnar í 2. sæti að bjarga málunum.

Keppnin hér í Noregi í fyrra kostaði um 200 milljónir norskra króna, rúma fjóra milljarða íslenskra. Til samanburðar má geta þess að ársvelta RÚV er um tveir milljarðar króna. Norska ríkisútvarpið NRK neyddist fyrir vikið til að hverfa frá fjölda útsendinga frá íþróttaviðburðum sem skiljanlega lagðist misvel í suma. Sennilega taka Íslendingar einhvern tímann toppsætið í þessum gamalgróna vorboða Evrópu sem keppnin er. Mér er minnisstætt það áfall sem stór hluti þjóðarinnar varð fyrir í maí 1986 þegar ICY-hópurinn hafnaði í 16. sæti með sinn ágæta Gleðibanka. Löngu var búið að ákveða að þarna færi gulltryggt sigurlag. Blöðin birtu myndir teknar á götum Reykjavíkur meðan á keppninni stóð. Einn bíll sást þar á ferð. Þetta var alveg magnað.

Athugasemdir

athugasemdir