Rúmlega 16.000 miðar eru seldir á tónleika Eagles sem hér verða haldnir með látum á Viking Stadion á hvítasunnudag. Aðstandendur tónleikanna gera sér vonir um að 20.000 miðar seljist á efsta degi en leikvangurinn rúmar 23.000 tónleikagesti. Rogalands Avis er með heljarmikla grein um viðburðinn í dag og stefnir allt í gríðarlega tónleika. Við keyptum loksins miða á standsvæði síðasta föstudag og erum komin með nettan Hótel Kaliforníuskjálfta.
Búnaður fyrir tónleikana fyllir 21 vöruflutningabíl og þegar sitja menn sveittir yfir því að skipuleggja flutning aðfanga að svæðinu. Þrír risaskjáir verða á sviðinu og sérstakt ‘Golden Circle’-svæði sem rúmar 2.000 áhorfendur verður fremst á leikvanginum. Miðinn þangað kostar hvítuna úr augunum enda munu gestir þar hafa tvo einkabari, kokka sem elda ofan í þá og eigin klósett!!!
Ekki kvíði ég svo sem barskorti því á þessum tónleikum Eagles verða alls 60 barir mannaðir 180 barþjónum. Guð hjálpi þeim þegar ég mæti á svæðið! Starfsfólk hljómsveitarinnar kemur í sex risahúsbílum sem það mun gista í meðan á öllu stendur en sveitin sjálf lendir á Sola-flugvelli (ef hann verður ekki lokaður vegna ösku) rétt fyrir tónleikana, þá nýkomin af tónleikum í Laugardalshöll í Reykjavík. Þetta verður svakaleg upplifun. Nú biður maður bara almættið um glampandi sól um hvítasunnuna eins og var á Rått og Råde-hátíðinni í september í fyrra þegar Prodigy og Ozzy Osbourne skóku Stavanger. Ókey, A-ha var þar líka en það fór minna fyrir þeim.
Ég verð að minnast þess að í dag er 26. maí sem ætti með réttu að vera þjóðhátíðardagur Íslands. Fáum dagsetningum hafa örlögin spunnið svo glitrandi vef. Listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, lést í Kaupmannahöfn þennan dag árið 1845, Íslendingar hófu að aka hægra megin á götunni að morgni 26. maí árið 1968 og, það sem ekki er minnst um vert, varðskipið Ægir skaut á breska togarann Everton norður af Grímsey í þriðja þorskastríðinu 26. maí árið 1973. Dagurinn kemst sennilega ekki á spjöld sögunnar árið 2011 nema kannski fyrir það að Félag framhaldsskólakennara skrifaði undir þriggja ára kjarasamning. Til hamingju með það.