Er RyanAir vogunarsjóður!?!

airplaneÉg er kófsveittur eftir bókunarfargan kvöldsins en hér hef ég setið og þvælt mér í gegnum öll flugmiðakaup sumarfrísins 2013 sem er að nálgast hnattreisu í samanlögðum kílómetrafjölda. Svona lítur pakkinn út í sinni einföldustu:

Noregur – Ísland (10 daga dvöl)
Ísland – Portúgal (11 daga dvöl)
Portúgal – London (2 daga dvöl)
London – Stavanger (töluverð dvöl)

Við höfðum vit á því núna að falla ekki í sömu gildru og sumarfríin 2011 og 2012, það er að segja lenda í Stavanger seint á sunnudagskvöldi og beint í vinnu klukkan 08 morguninn eftir. Núna komum við hingað frá London klukkan 19:45 á laugardegi, slökum á eitt kvöld og einn dag og mætum svo fersk til vinnu. Reyndar efast ég um að sá ferskleiki risti dýpra en svo að ég muni komast fram úr rúminu þennan mánudag í ágúst án þess að taka einhverjar pillur til þess en vilji er allt sem þarf.

Flestar þessar flugbókanir gengu þokkalega fyrir sig ef litið er fram hjá því að Visa-kortið er lekið niður á gólf þar sem það myndar bráðna plaststrýtu með afbakaðri segulrönd. Ég verð þó að segja að mér ofbýður sá gjaldafrumskógur sem svokölluð lággjaldaflugfélög smyrja á flugfargjöldin á þessum síðustu og verstu, sumt hreinlega gjöld sem ég hef bara aldrei heyrt um.

Í þessu sumarfríi munu eftirtalin flugfélög þeysast með mig ofurölvi um loftin blá: Icelandair, WOW Air, RyanAir, EasyJet og British Airways (náði alveg að sniðganga SAS núna eins og ég talaði um að gera í pistli um daginn). Í þessum hópi var það RyanAir sem beit höfuðið af skömminni. Þeir ætla að skutla okkur frá Faro í Portúgal til London. Ekki merkilegt í sjálfu sér nema hvað flugmiðinn sjálfur er nánast orðinn aukaatriði en hér er listi yfir önnur gjöld félagsins sem leggjast á ferðina:

4.00 EUR pr. Passenger Fee: EU 261 Levy

12.00 EUR pr. Passenger Fee: Web Check in

0.50 EUR pr. Passenger Fee: ETS

12.00 EUR pr. Passenger Fee: Administration Fee

35.00 EUR pr. Passenger Fee: Checked Bag(s)

5.04 EUR pr. Passenger Fee: Credit Card Fee

Sex gjöld fyrir utan sjálft verðið á miðunum! Ég er eiginlega hissa á að RyanAir hafi ekki náð að leggja á mig fisksjúkdómagjald, raffangaeftirlitsgjald og almanakssjóðsgjald í leiðinni (ég notaði jú almanak á síðunni hjá þeim þegar ég valdi dagsetninguna). Þetta gera 68,5 evrur og það á hvort okkar = 137 evrur en flugmiðarnir kostuðu samanlegt 119,98 evrur.

Ég stend því á þeim tímamótum í lífi mínu að hafa greitt meira í skatta og gjöld en fyrir sjálfan flugmiðann, þetta er nánast fréttaefni. Rámar einhvern í það fyrir 10 – 15 árum þegar maður gat farið að bóka flug á netinu og slapp þá við svokallað bókunargjald fyrir að láta starfsmann í söludeild bóka fyrir mann? Núna er “Administration Fee” 12 evrur á farþega þrátt fyrir að engin lifandi manneskja önnur en kaupandinn komi nálægt bókuninni.

Er þróunin að verða sú að maður kjósi heldur að fara með skipi í sumarfríið eftir tíu ár eða svo?

Athugasemdir

athugasemdir