Er mánudagsfrí þess virði?

klukkur daliÉg átti kærkomið mánudagsfrí í fyrradag sem kom til vegna vinnu um helgina en einhverjar reglur krefjast þess að fólk fái samfellda 36 klukkustunda hvíld minnst einu sinni í viku. Bölvað rugl náttúrulega.

Jæja, kærkomið og kærkomið. Þetta nægði fullkomlega til að setja allt úr skorðum hjá mér. Takturinn í kerfinu er mjög fastur. Hann getur auðveldlega gert ráð fyrir annasömum helgum með vinnu og skóla en skilur illa frí á mánudegi þegar hvorki eru páskar, jól né hvítasunna. Á virkum dögum læt ég símann hringja klukkan 05:10. Ég dregst á fætur, stilli hann á 05:20, ligg þessar tíu mínútur, bölva lífinu og tilverunni og bið drottin um tóbak, vín og þrjár frillur eins og Jón Hreggviðsson eftir hýðinguna en hef mig svo á lappir, fæ mér kaffi og brauðsneið og er mættur í ræktina kl. 05:45 og vinnuna um það bil 07:25, fer eftir umferð.

Þess vegna leið mér hálfundarlega þegar grá febrúarbirtan lak inn í höfuðkúpuna klukkan 10:15 mánudagsmorguninn 4. febrúar. Fannst eiginlega hálfpartinn eins og ég væri að svindla á kerfinu og kominn með mína endanlegu fjarvist í hinn stóra kladda lífsins. Miðtaugakerfið taldi eðlilega að um sunnudag væri að ræða en það kom ekki heim og saman þar sem hvorki öskur langdrukkinna róna né háværir tónar Jóns heitins Reiðufjár (e. Johnny Cash) bárust ofan af 3. hæðinni en þar hefur verið ein stanslaus teiti frá föstudegi til sunnudags allar götur síðan antabus-kúrinn góði klikkaði svona illilega hjá honum R… nágranna okkar.

Mér leið sem sagt tiltölulega óeðlilega þar til ég kveikti á því að hörkukeyrsla hafði verið á bryggjunni laugardag og sunnudag og þess vegna væri ég einfaldlega heima, á launum og ætti bara að vera í sjöunda himni. Á þriðja kaffibolla lærði ég að lifa með því.

Ekki bætti úr skák að síðasta vika var alls ekki mín vika á kæjanum. Vegna þessa skólabrölts á mér aðra hverja helgi hef ég þurft að hrókera vöktunum mínum örlítið þar sem tvær vaktahelgar lenda á skólahelgum. Önnur þeirra er helgin 22. – 24. febrúar en hinn góðhjartaði öldungur Kjell Knutsen, sem með réttu átti vakt síðustu viku, samþykkti að skipta við mig og leyfa mér að taka helgina hans gegn því að hann hlypi í mitt skarð meðan ég hlusta á fyrirlestra um sementklæðningu olíubrunna undir hafsbotni eftir þrjár vikur. Hentugt.

Ég náði samt aldrei almennilegum frítakti í þennan mánudag. Hafði mig á æfingu klukkan 14:30, reyndi að einbeita mér af einhverju viti að námsbókum þar fyrir utan og lenti svo í þeim eðlilegu eftirköstum að finnast vera mánudagur allan daginn í gær af því að ég lá í leti á mánudaginn sem ískyggileg og meðvitundarlítil undirmeðvitund mín túlkaði sem sunnudag. Þar sannast væntanlega hinn gamalgróni frasi Ciceros, consuetudo altera natura, vaninn er sú önnur náttúra.

Rómverjar voru kannski ekki svo galnir eftir allt saman þótt þeir hafi leikið á hljóðfæri meðan borgin brann.

Athugasemdir

athugasemdir