Er eðlilegt að ég sé yfirmaður á sjúkrahúsi?

susMér barst atvinnutilboð frá háskólasjúkrahúsinu hér í Stavanger í gær og þáði ég boðið eftir að hafa tekið mér umhugsunarfrest til hádegis í dag. Frá og með 15. nóvember verð ég yfirmaður í intern service avdeling – eða innanhússþjónustudeild – sjúkrahússins og mun þá hafa með höndum stjórn hreingerningargengis nokkurra deilda á sjúkrahúsinu. Starfsheiti mitt er sekjsonsleder sem nokkuð snúið er að þýða. Mér finnst hvorki rétt að kalla þetta verkefnisstjóra né verkstjóra, seksjonsleder er meira eins og undirdeildarstjóri en hann fer með stjórn ákveðins afmarkaðs hluta deildar og heyrir beint undir deildarstjóra. Er þetta nógu flókið? (MYND: Háskólasjúkrahúsið í Stavanger, okkar fyrsti vinnustaður eftir flutning.)

Þennan mánudag í nóvember fæ ég skrifstofu, ágæt laun og 30 undirmenn. Einkabílstjóri verður að bíða, þetta er nú einu sinni ríkisstofnun. Ég mun þurfa að gera fjárhagsáætlanir fyrir mínar deildir og skamma fólk sem kvartað er yfir. Ég kann hvorugt. Hvernig kemur maður sér í ógöngur á borð við þessar? Jú, ég sótti um stöðuna í lok ágúst, rétt áður en ég hætti í sumarvinnunni á sjúkrahúsinu. Þann 8. október var ég meðal níu umsækjenda sem boðaðir voru í atvinnuviðtal.

Viðtalið tók klukkutíma sem er óvenjustutt miðað við norskt atvinnuviðtal. Ég hafði logið því í sláturhúsinu að ég væri að fara til tannlæknis svo það var ágætt að þetta tók ekki allan daginn. Maður vildi ekkert láta það leka út þar að verið væri að þrykkja atvinnuumsóknum í allar áttir ef svo færi að stóla þyrfti á starf við að höggva lömb í spað um lengri tíma. Tveir deildarstjórar tóku viðtalið en þriðji maður á staðnum var fulltrúi frá Fagforbundet sem er stéttarfélagið okkar og hluti af Landsorganisasjonen sem er ASÍ Noregs. Ríki og sveitarfélögum ber skylda til að boða í atvinnuviðtal slíkan hagsmunagæsluaðila frá því stéttarfélagi sem umsækjandi tilheyrir. Þetta var feitur lúði með yfirskegg en hann hjálpaði mér í viðtalinu og var í heildina heilmikill stuðningur í honum. Sífellt rekst maður á eitthvað nýtt.

Ann-Britt Olson, deildarstjóri ræstingardeildarinnar, fór svo að rekja úr mér garnirnar með spurningalista sem allir norskir vinnuveitendur virðast nota í atvinnuviðtölum og er hannaður af einhverju markaðsfyrirtæki. Listinn er í heildina tíu blaðsíður en margir velja bara ákveðnar spurningar. Einu sinni hef ég svarað honum öllum. Það var í tveggja klukkutíma viðtali vegna ritstjórastöðu timeanddate.com í síðustu viku. Báðir aðilar viðtalsins voru nær dauða en lífi að því loknu. Spurningarnar eru misgáfulegar: Hvaða kosti finnst þér að góður yfirmaður eigi að hafa, af hvaða afrekum þínum í lífinu ertu stoltust/stoltastur, hvað myndi síðasti yfirmaður þinn segja ef ég spyrði hann út í þig, hvað myndirðu gera ef þú ynnir í lottóinu og svo framvegis og svo framvegis. Við mjög mörgum spurninganna á maður að gefa þrjú svör og raða þeim eftir mikilvægi. Ég hef aldrei svarað sömu spurningunni eins í tveimur viðtölum og væri mikið til í að sjá ‘óskasvörin’ samkvæmt höfundum listans sem virðast í besta falli vera bjánar.

Þegar viðtalið var um það bil hálfnað spurði Ann-Britt mig hve mikla reynslu ég hefði í gerð fjárhagsáætlana en slíka áætlun kæmi sá umsækjandi, sem ráðinn yrði, til með að þurfa að legga fram mánaðarlega á einhverjum fjármálafundi.

Ég leit framan í deildarstjórann eins og hún hefði lagt líkið af Geirfinni Einarssyni á borðið. Ætlaðist manneskjan til þess að ég annaðist gerð fjárhagsáætlana fyrir innanhússþjónustudeild stofnunarinnar? Ég sá fyrirsagnir Stavanger Aftenbladet fyrir mér þegar þeir kæmust í málið: Gjaldþrota blaðamaður frá Íslandi stjórnar fjármálum sjúkrahúss – enn eitt hneykslið hjá biðraðastofnuninni (sjúkrahúsið á Noregsmet í biðröðum eftir aðgerðum en rúmlega 15.000 sjúklingar eru á biðlista – margir sennilega löngu dauðir).
sjukehuset
Ég leit djúpt í augu Ann-Britt og sagði henni hispurslaust að mínar hörðustu fjárhagsáætlanir hefðu verið gerðar í Bónus á Íslandi þegar ég var að ákveða hvaða fimm 1944-rétti ég ætti að kaupa til að eiga í vinnunni næstu vikuna. Ég tautaði svo eitthvað um að sennilega gæti ég lært þetta eins og aðrir…sú yfirlýsing var algjörlega gegn betri vitund eins og Bjarni Pálsson, fyrrum stærðfræðikennari í FG, getur vitnað um eftir að ég sat hjá honum STÆ-462 haustið 1992. (MYND: Ég kann ekki að gera svona rauðan hring á myndir en við búum í efri raðhúsalengjunni af þessum tveimur sem eru lengst til vinstri á miðju myndarinnar. Þetta er ekkert langur göngutúr.)

Ég afskrifaði þetta starf sem sagt með öllu þegar ég gekk út í októbersólina og tók strætó til baka upp í Nortura, laus við fjárhagsáætlanir og annað puð…þar til það kom eins og steikarpanna í hnakkann á mér í gær að ég hefði talist hæfasti umsækjandinn. Hverjir voru þá hinir??? Vistmenn á Kleppi? En auðvitað var ekki hægt að hafna þessu. Við búum við hliðina á sjúkrahúsinu, héðan er innan við tveggja mínútna gangur að þeim inngangi sem er næstur okkur. Það er mikill lúxus miðað við núverandi ástand þar sem ferðalagið til og frá vinnu tekur minnst 40 ólaunaðar mínútur hvor leggur – og oft reyndar lengri tíma á leið heim síðdegis þegar umferð er á vegum.

Jæja, maður verður bara að vera bjartsýnn, það verður sennilega athyglisvert að prófa þetta eins og allt annað. Í versta falli fæ ég Steingrím J. til að gera fjárhagsáætlanirnar fyrir mig. Það er nú maður sem kann að skera niður eins og siður er í öllum heilbrigðisgeirum.

Athugasemdir

athugasemdir