Ég fékk nýja norska ökuskírteinið mitt með póstinum í dag frá Statens Vegvesen. Þetta teldist vart í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að hálft ár er liðið síðan ég skilaði íslenska ökuskírteininu ásamt umsókn um norskt til Vegvesenet sem fer með útgáfu ökuskírteina, framkvæmd ökuprófa og alls konar umferðartengt eftirlit í konungsríkinu Noregi. (MYND: Norskt ökuskírteini á báðum ríkismálum landsins, bókmáli og nýnorsku. Kostaði svipað umstang og að fá handritin frá Dönum árið 1971.)
Líklega er það engin tilviljun að orðið vesen kemur fyrir í heiti margra norskra stofnana, svo sem Brannvesenet, Vegvesenet og Helsevesenet sem er nú sennilega mesta vesenið af öllum en biðraðirnar þar eru slíkar að flestir eru löngu dauðir áður en þeir komast nálægt spítalanum.
Ég lagði íslenska ökuskírteinið fram 18. september í fyrra og fékk þá gefna út bráðabirgðaakstursheimild til þriggja mánaða. Hana þurfti ég að endurnýja fyrir jól og fékk þá framlengingu til 18. mars sem slapp með naumindum fyrir horn. Með þessu hirðir Vegvesenet fyrsta sætið skuldlaust af Lyse a/s sem tókst að láta okkur bíða í einn mánuð eftir fastlínusíma árið 2010. Þeir voru þó svo þægilegir að láta okkur vita af biðtímanum fyrir fram og taldi ég víst að ég væri í falinni myndavél þegar þjónustufulltrúinn tilkynnti mér grafalvarlegur að síminn tæki 30 daga. Þegar þarna var komið sögu hafði ég eingöngu búið tvo og hálfan mánuð í Noregi og fékk vægt áfall. Núna hefði mér þótt þetta tiltölulega hröð afgreiðsla.
Sumt kemur þó á óvart hvað hraða snertir. Á þriðjudaginn var ég staddur hjá mínum ágæta heimilislækni, Lars Peter Christersson, þeirra erinda að fá útgefið offshore helseattest, læknisvottorð fyrir starf á olíuborpalli. Þetta er töluverð rannsókn, sjón, heyrn, litaskynjun, holdafar, blóðþrýstingur, hæð, þyngd og að lokum sendi maðurinn mig inn í næsta herbergi þar sem klínikdama hans leit blákalt í augun á mér og bað um blóð og þvag.
Það var ekkert tilfinningamál að láta henni nefnda vessa í té en þarna hugsaði ég með mér að kæmi nú lagleg bið eftir niðurstöðum úr sýnatöku þessari. Svo var þó ekki. Ég var ekki fyrr sestur inn til læknisins aftur en hann rétti mér undirritað borpallaheilsuvottorð til tveggja ára og bað mig svo að fara til andskotans. Ég átti ekki orð yfir þessari hraðmeðferð, vissi ekki annað en maðurinn og heilbrigðiskerfi það sem hann þjónaði væri allt norskt í húð og hár. Þá fékk ég að vita að blóðsýnið tæki aðeins hálfa mínútu í greiningu og þvagið þrjár, tölur sem ég hef varla heyrt nefndar hér í landinu.
Vesenið er því mismikið en meginreglan er að seigfljótandi þolinmæði er skilyrði fremur en kostur.