Enginn joðskortur í Kastljósi

kastljosÉg var að horfa á líflegt Kastljósviðtal við Steingrím J. Sigfússon síðan í gær. Segja má að þar hitti skrattinn ömmu sína þegar þeir mætast á vígvellinum, gamli MORFÍS-refurinn Sigmar og svo Steingrímur sem hefur verið einna þaulstæðastur allra þingmanna í ræðupúlti Alþingis síðustu X kjörtímabil. Það er verkefni út af fyrir sig að telja hve oft orðið ‘þverpólitískt’ kom fyrir í þessum Kastljósþætti en skondnast þótti mér þegar Steingrímur sagði eitthvað á þá leið að það væri merkilegt ef þjóðin felldi nýja Icesave-samninginn í atkvæðagreiðslunni miðað við að 70 prósent þingsins hefðu verið fylgjandi lögunum um hann þegar gengið var til atkvæða. Í fréttatíma RÚV á undan Kastljósi hafði einmitt verið fjallað um nýafstaðna Gallup-könnun um traust gagnvart stofnunum og þar komið fram að Alþingi nyti trausts 11 prósenta þjóðarinnar! Að fenginni þeirri vitneskju þætti mér mjög líklegt að þjóðin felldi nýja samninginn fyrst Alþingi var svona hrifið af honum. Í sömu könnun mældist traust gagnvart bankakerfinu heil 6 prósent sem er eiginlega meira en ég bjóst við.

Ég sé á Vísi að bensínið er komið upp í 223,40 krónur hjá Skeljungi og krónu lægra hjá hinum. Á dauða mínum ætti ég von frekar en að Íslendingar næðu Norðmönnum í bensínverði en það mun sennilega gerast seint á þessu ári haldi hækkanir áfram með sama sniði og þær hafa verið frá áramótum. Hérna kostar lítrinn að meðaltali 13 krónur sem eru 269 íslenskar krónur á gengi dagsins í dag. Þetta sveiflast þó milli söluaðila og landshluta en dýrasta bensín sem ég finn hér á Vesturlandinu svokallaða er 13,88 krónur hjá Statoil í Bergen en það eru rúmar 287 krónur. Skeljung vantar ekki nema 46 krónur upp á að ná meðalverðinu hérna og miðað við um það bil 5 króna hækkun á mánuði eins og verið hefur á þessu ári ætti þetta ekki að taka nema níu mánuði. Pressan hefur eftir Runólfi hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda að hækkanirnar núna séu til komnar vegna óeirða í Mið-Austurlöndum. Alveg er ég viss um að íslensku olíufélögin munu keppast við að lækka bensínið aftur þegar hægist um austur frá…er það ekki alveg öruggt mál? 🙂

Athugasemdir

athugasemdir