Það endar með því að ég missi af því að útskrifast, ég eyði hundraðfalt meiri tíma í að skipuleggja væntanlegt líf í Noregi en að skrifa MA-ritgerð sem ég þarf þó að skila mjög bráðlega. Í kvöld vorum við að senda fyrirspurn um leiguíbúð í miðbæ Stavanger, steinsnar frá Háskólasjúkrahúsinu þar sem við munum starfa. Á meðfylgjandi mynd sést sjúkrahúsið fyrir miðju og efst á myndinni smábátahöfnin (í Noregi ertu víst bara the scum of the earth ef þú átt ekki bát til að þeysast á um hinn ægifagra Lysefjorden). (MYND: Háskólasjúkrahúsið í Stavanger á miðri mynd.)
Jafnlangt í hina áttina frá höfninni er íbúðin sem við höfum augastað á til að byrja með og kostar 6.000 norskar á mánuði með rafmagni, sjónvarpi og nettengingu. Laun eru að jafnaði 25 – 30 þúsund á mánuði og við verðum bæði í vinnu svo þetta dugar. Sem sagt skottúr í vinnuna. Sjúkrahúsið er 60.000 fermetrar og það fjórða stærsta í Noregi með 5.500 starfsmenn. Ætli þeir tali fleiri tungumál en starfsfólk LSH hér heima? Nú hefst metingur! Sennilega fer sumarið í að læra hvar kaffistofan er og klósettin og svo framvegis en þú veist nú töluvert þegar þú veist hvar þú átt að míga á fjórða stærsta sjúkrahúsi Noregs. Margir þar gera það nú sennilega bara gegnum þvaglegg.
Ég skal alveg játa að við erum bæði eins og börn að bíða eftir jólunum að komast úr þessu rugli hérna á Íslandi. Sá dagur þegar við mætum til vinnu aftur og verðum þjóðfélagsþegnar á ný einhvers staðar verður hrein endurfæðing. Það er svona hálfpartinn búið að aftengja mann hér á Íslandi, maður er ekki hluti af þessu þjóðfélagi lengur. Það er eitthvað að í vestrænu landi þar sem mörg hundruð manns bíða í röð á miðvikudögum eftir að fá gefins mat á meðan alþingismenn hnakkrífast um hvort banna eigi ljósabekkjanotkun unglinga og viðskiptaráðherra lýsir því yfir daglega hvað hann hafi miklar áhyggjur. Vesalings maðurinn.
Það er alveg glimrandi að manni er tekið opnum örmum í landi á borð við Noreg á meðan stjórnvöld í manns eigin landi gera ekki nokkurn skapaðan hlut til að hjálpa almúganum. Hér er bara mokað undir glæpahyskið sem hvolfdi Íslandi og máttlaus stjórnvöld segjast bara hafa áhyggjur. Greyin litlu.
Það er eitt sem mun alveg liggja kristaltært fyrir: Að lokinni MA-ritgerð, hryllilegri pökkun og burði út í gám og ferð út í Leifsstöð 11. maí næstkomandi klukkan 05 að morgni ætla ég að setjast niður í fullkomnum makindum á barnum, panta mér tvöfaldan Bombay-gin í tónik, halla mér aftur á bak í sætinu og segja bless. Og ég get hreinlega ekki beðið eftir þeim guðdómlega morgni. Megi íslensk stjórnvöld halda áfram að sökkva landinu en ykkur get ég sagt eitt, Steingrímur, Jóhanna og Gylfi, það eru miklu fleiri en ég og mín fjölskylda að fara. Bara við þekkjum tugi fjölskyldna sem eru að undirbúa flótta héðan. Sjálfstæðismenn sökktu okkur í fenið, ég játa það. En þið eruð svo sem ekkert að draga okkur upp úr því.
Og Garðbæingar, ef þið takið ekki Reykvíkinga á beinið í úrslitum í Útsvari geng ég með hauspoka á meðan öndin þaktir í vitum mér!