Engin menningarborg er án Keisara

vikingÍ gær uppgötvuðum við eins konar Keisara Noregs og er þá ekki átt við embættismann með það tignarheiti heldur um vísun að ræða í ágætt öldurhús sem einhverju sinni stóð við Hlemm í Reykjavík og sjónarsviptir er að. Eftir siglinguna sem rækilega er tilfærð í síðasta pistli misstum við af strætó og ákváðum að stökkva inn á næsta bar í einn kaffibolla. Svo vildi til að næsti bar var Viking Pub við hlið umferðarmiðstöðvarinnar niðri í miðbæ og dagljóst að vertinn þar heyrir ekki oft beðið um kaffi enda skaut hún að okkur nettu hornauga. (MYND: Alvöru fimm stjörnu rónabar í hjarta Stafangurs. Gestirnir kölluðu ekki allt ömmu sína en þó ljóst að nokkrar ömmur stóðu við barinn eins og ær við jötu.)

Þarna voru sem sagt saman komnir kantmenn lífsins hér í borginni og drógu þeir hvergi úr stífri drykkju. Skítugur íþróttafatnaður virtist vera ‘dress code’ á staðnum og meðalaldurinn sló í nírætt. Með öðrum orðum bæjarrónar á góðri siglingu á öðrum í hvítasunnu og vantaði í raun bara Gumma Jesú eða Tryggva skít með munnhörpuna á lofti til að fullkomna Keisaraímyndina. Bílútvarp hefði sennilega verið tekið alveg eins gott og gilt við barborðið og klinkið sem við greiddum fyrir kaffið með, að minnsta kosti var víst ekki fúlsað við þeim gjaldmiðli á Keisaranum sáluga í Reykjavíkinni.

Rannsóknarblaðamennskueðlið kom auðvitað upp í mér og ég náði að smella af tveimur myndum á meðan ég þóttist vera að stilla myndavélina eitthvað á borðinu fyrir framan mig. Það er flott að vera búinn að finna þennan bar hér í Stafangri, allar borgir sem eitthvað kveður að skarta minnst einum slíkum. Þá veit ég hvert stefnan verður sett næst þegar ég finn þörf fyrir að panta mér fimmfaldan íslenskan brennivín í vatn!

laugmannsgÍ dag hófust bankaviðskipti okkar í Noregi með formlegum hætti. Reyndar byrjaði förin allt annað en formlega þar sem við æddum út um allan miðbæinn í leit að Nordea-bankanum sem ég hef góða reynslu af frá Finnlandi og mun því velja sem viðskiptabanka minn hér. Bankinn er mjög framarlega í öryggismálum, til dæmis með þeirri aðferðafræði að staðsetja aðalútibúið í Stafangri þannig að nánast útilokað er að finna það. Þetta hlýtur að draga mjög úr hættunni á ránum og gripdeildum. (MYND: Hinn norski Laugavegur. Úr gamla bænum í Stafangri.)

Fyrir framtíðarviðskiptavini frá Íslandi upplýsist það hér að bankinn er í lítið merktu og mjög óáberandi húsnæði fyrir aftan umferðarmiðstöðina, reyndar þannig að umferðarmiðstöðin liggur akkúrat á milli bankans og Viking Pub sem greint er frá hér að ofan. Það gæti reyndar skýrt ýmislegt í tengslum við meintan feluleik. Ég hef sennilega þótt grunsamlegur útlits þegar ég ruddist bullsveittur inn í bankann átta mínútum fyrir lokun eftir rúmlega klukkustundar örvæntingarfulla leit en starfsfólkið hélt sig á mottunni. Svo tók við allt að því sovésk skriffinnska.

Eyðublaðið á Íslandi, sem fylla þarf út vegna laga um aðgerðir gegn peningaþvætti, er fimm eyðublöð hér – þó samanheftuð. Ég held ég hafi þurft að skrifa nafn, kennitölu og heimilisfang átta sinnum svo núna man ég alla vega nýju kennitöluna mína, svo mikið er víst. Á morgun þurfum við svo að mæta aftur í bankann í myndatöku fyrir greiðslukort og svo hugsanlega enn einu sinni til að sækja kortin þegar þar að kemur. Og þó, kannski senda þeir þau í pósti.

Við létum auðvitað plata okkur í lítið og rólegt Eurovision-partý upp í Klepp til Ella og fjölskyldu. Það kostar strætó og lest að brjótast þangað upp eftir en þjóðerniskenndin renndi blóðinu til skyldunnar. Ekkert stóð nú svo sem upp úr í þessu frekar en venjulega en auðvitað gaman að sjá Heru merja það áfram. Það væri nú þokkalegt ef Ísland ynni svo loksins og við stödd í Noregi. Það væri mátulegt þar sem við vorum á Íslandi í fyrra þegar Noregur vann. Við ætlum ekki einu sinni í stemmninguna til Óslóar á laugardaginn…kosningarnar á Íslandi munu halda okkur heima og við tölvuskjáina. Ég get ekki beðið eftir að sjá Jón Gnarr rúlla borginni upp. New Jack City…

Athugasemdir

athugasemdir