Endurkoma plokkarans

plokkfiskurGamli góði plokkfiskurinn hefur ruðst með látum inn í líf okkar aftur. Við keyptum okkur 20 kíló af þorskflökum beint frá framleiðanda í síðustu viku og fylltum næstum fjórðung frystikistunnar en hún hafði fram að því ekki verið í sambandi. Svo fór fram mikil plokkfiskgerð hér á heimilinu en ekki þarf að tíunda hve frábær sá réttur er. Okkar útgáfa er með miklum lauk, salti og chillipipar. Ég get legið í plokkfiskáti daglangt og ekki skemmir að hann er ekkert verri kaldur. (MYND: Þessi mynd tengist pistlinum ekki beint. Hér er á ferð norsk útgáfa af plokkfiski (n. plukkfisk) með makkarónum og beikoni en Norðmenn hafa einstakt lag á að troða beikoni í alla eða marga fiskrétti./achicchef.blogspot.com)

Sá einn er gallinn á gjöf Njarðar að hér fæst ekki seytt rúgbrauð upp á íslenska mátann. Við keyptum danskt rúgbrauð sem var reyndar ágætt en vantaði alveg þetta rammíslenska bragð. Sigurbjörn Bjarnason, rafvirki og búfræðingur, segir þó lítið mál að baka þetta úr norskum hráefnum en hann ku baka rúgbrauð í mjólkurfernum í ofni sínum. Dagljóst að Noreg vantar fleiri íslenska rafvirkja.

Sem færir mig að því að norska starfsmannaleigan/ráðningarstofan Personal Partner er með starfamessu á Grand hóteli í Reykjavík á þriðjudag og miðvikudag. Ég hef ekki heyrt um þá áður en þeir segjast koma til að sækja smiði, pípara, stáliðnaðarmenn, rafvirkja, bifvélavirkja og meira að segja bændur! Allir íslensku bifvélavirkjarnir sem eru á atvinnuleysisskrá en fást þó ekki til að sækja um störf hjá Heklu ættu kannski að skoða málið. Hérna er auglýsingin.

Nýju fæðubótarefnin sem ég greindi frá í þessum pistli eru hreint ótrúleg sprengja. Á fimm dögum, frá sunnudegi til síðasta föstudags, hlóð ég á mig 2,4 kílógrömmum eða að meðaltali 480 grömmum á dag. Fór úr 95,6 í slétt 98. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að slíka þyngdaraukningu hef ég ekki upplifað áður og yrði sennilega að éta blý ef ég ætlaði að bæta þetta met.

Sennilega hefur þyngingarblandan Mutant Mass mest að segja í þessu enda tveir 1.100 hitaeininga hristingar af henni hesthúsaðir daglega, annar við fótaferð en hinn eftir æfingu. Mig grunar að Krea Bolic-kreatínið sé einnig lúmskur haukur í horni enda er ekki dauður punktur á æfingum núna, bara kraumandi geðveiki. Ég hef nú komið mér upp Excel-skjali til að skrá glórulausa þyngdaraukningu mína og get sennilega birt hana hér síðar í formi línurits. (Ég þoli ekki Excel.)

Nú fara heldur betur í hönd dagar víns og rósa. Á morgun gerir sjálfur tengdafaðir minn strandhögg hér til tveggja vikna dvalar, klyfjaður lifrarpylsu, SS-pylsum, flatkökum og hangikjöti. Líklegast verð ég 200 kíló við næstu vigtun.

Athugasemdir

athugasemdir