Norsk fjarskiptafyrirtæki virðast hafa það höfuðmarkmið í lífi sínu að fá mig sem GSM-viðskiptavin. Ég skil þetta reyndar ekki þar sem ég hlýt að vera ákaflega óspennandi kúnni í slíkum viðskiptum, á gamlan Nokia 3210-síma sem býður ekki upp á neitt nema símtöl, SMS-skilaboð og myndavél með sirka eins megapixels-upplausn ef það nær því, vafra ekki á netinu með símanum, skil ekki enn þá almennilega hvað “app” er og er almennt gamaldags og leiðinlegur en…haldinn gríðarlegri tryggðaráráttu við fyrirtæki sem ég skipti við.
Framangreindum meintum markmiðum reyna þessi fyrirtæki að ná með því að láta starfsfólk sitt hringja í mig þegar ég er í vinnunni og spyrja hvort nú sé ekki einmitt rétti tíminn til að flytja mín viðskipti yfir til Telenor, Netcom, TeliaSonera, Tele2 eða hreinlega beint til helvítis sé sá gállinn á mér. Þetta leiðist mér meira en að fylla út skattframtal.
Ég er búinn að losa mig við Telenor fyrir fullt og allt, held ég sé kominn á einhvern innanhúss-shitlist hjá þeim eftir að hafa í þrígang bent sölumönnum þeirra á að ég hefði nú óskað eftir að komast í reikningsviðskipti við þá sumarið 2010 en fengið pent norskt nei þar sem ég var ekki fastráðinn í vinnu (var í vinnu sem sumarafleysingamaður) og varð því bara að halda áfram að kaupa GSM-inneign fyrir allt að 600 (norskar) krónur á viku. Engum þremenninganna knáu tókst að svara þeirri spurningu minni hvers vegna ég væri skyndilega nógu góður fyrir hið háa Telenor núna.
Einhver hjáróma aumingi með Drammen-hreim frá Eitthvað-Norge eyðilagði hádegismatinn fyrir mér í dag. Hann hringdi samt ekki akkúrat þegar ég var sestur að dýrindis snitzelinu sem kokkarnir hjá ConocoPhillips ná svo sérstaklega vel heldur hringdi hann einmitt þegar ég var á klósettinu og að búa mig undir að rölta yfir í mötuneytið, búinn að hlakka til snitzelsins síðan á þriðjudaginn.
Þarna stend ég, nýbúinn að skvetta úr skinnsokknum og að basla við að festa beltið á ný á meðan ég fiska upp símann og svara í hann. Í stað innihaldsríks símtals frá einhverjum sem skilur að símtöl eru til að koma hlutum sem skipta máli frá einum aðila til annars spyr einhver hengilmæna sem virðist hafa misst alla prozac-krukkuna sína ofan í sig um morguninn hvort ég vilji ekki koma yfir til hans fyrirtækis og greiða aðeins 49 krónur í fastagjald á mánuði og fá hitt og þetta frítt í ofanálag, þúsund terabæt í netniðurhal og ótakmörkuð símtöl til Kuala Lumpur milli þrjú og fjögur aðfaranótt mánudags hvenær sem ég vil…nema á mánudögum.
Herra Drammen varð svo sem ekki orðlaus þegar ég sagði honum að reyndar greiddi ég Lyse núll krónur í fastagjald og væri almennt ekki með hærri GSM-reikning en 150 krónur á mánuði þrátt fyrir n SMS til Íslands og mjög óagaða notkun almennt, en honum varð greinilega ekki um sel. Hann sættist svo á að kveðja mig þegar ég fullyrti við hann að ég þyrfti að komast í buxurnar til að geta farið og fengið mér snitzel í mötuneytinu og að hann væri algjörlega að sóa tíma sínum við að reyna að ná mér frá Lyse sem ég keypti alla rafræna þjónustu af. Þar með lauk samskiptum okkar.
Eftir rannsóknir á lýðnetinu í kvöld komst ég svo að því að hægt er að fá sér símabannmerkingu á pari við rauða X-ið á Íslandi með því að heimsækja vefsetur Det Sentrale Reservasjonsregisteret i Brønnøysund, skrá þar kennitölu sína og öll símanúmer sem bannið nær til. Á sama stað er hægt að undanþiggja sig auglýsingapósti.
Ég dreif í þessu núna áðan. Þeir náðu samt að skemma fyrir mér snitzelið.