Það er enginn hörgull á fólki sem hefur áhuga á að tjá sig um nektardanslögin svokölluðu. Núna er ég að hlusta á piltana í Reykjavík síðdegis spyrja konur sérstaklega út í þetta. Það vekur athygli mína að mörgum þeirra finnst út í hött að banna þetta, starfsemin fari bara algjörlega ofan í jörðina við það og verði svört vinna á vafasömum neðanjarðarbúllum. Það er heilmikið til í því.
Mér finnst þetta mjög dæmigert fyrir ríkisstjórn Íslands sem Árni Sigfússon ræðir um í DV í dag og segir að sé að draga fjöður yfir eigið aðgerðaleysi með röð frumvarpa um ómerkileg smámál eins og að banna ljósabekki innan 18 ára og banna nektardans.
Það sem mér finnst dæmigert er þessi blinda einstefna stjórnarinnar sem ryðst áfram eins og dráttarhestur með svona blöðkur sem hindra að hann sjái út undan sér (hvað heitir það??). Alltaf virðist það vera algjörlega aftast á listanum að leita sameiginlegra lausna, bara banna, stöðva, skattleggja og stórhækka álögur á allt. Óttaleg skammsýni segi ég án þess að vera svo sem einhver þjóðhagfræðingur.
Þetta minnir mig svolítið á þegar reykingar voru bannaðar í öllum byggingum Háskóla Íslands árið 1994 (minnir mig). Þarna var ég á fyrsta ári í lögfræði og reykti. Það er reyndar magnað að hugsa til þess núna hve stutt er í raun síðan reykt var á öllum kaffistofum skólans. Ég man vel eftir því þegar maður sat í frímínútum í kaffistofunni á fyrstu hæð í Lögbergi sem spannaði nánast allt húsið á lengdina. Þá sást varla veggja á milli fyrir reykjarmekkinum sem þar stóð upp af stúdentum. Þeir sem ekki reyktu kvörtuðu ekki eins mikið og búast mætti við.
Svo er lagt blátt bann við reykingum innandyra og öllu reykingafólkinu hent út og stóð þá í hnöppum við iðju sína við alla innganga og oft í rýminu milli innri og ytri dyra þar sem þær voru. Þá upphófst mikið ramakvein reyklausra sem nú þurftu bókstaflega að vaða reyk til að komast inn og út úr byggingum.
Þetta hefði mátt leysa með dálitlum tilslökunum og til dæmis sérstökum reykherbergjum eins og voru á mörgum vinnustöðum þessa tíma. Það skildu menn meira að segja í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, þar sem ég var áður, og sýndu þau liðlegheit að setja upp gám eða gamlan vinnuskúr, ég man ekki hvort, við gafl skólans sem afdrep fyrir þá sem kusu að stytta líf sitt með reyknum. Þetta var gert jafnvel þótt einhver hluti nemenda hefði ekki lagalega séð náð reykaldri.
Svipað mætti hafa í huga með nektardansbann og fleiri bönn, þarna munu til dæmis einhver störf tapast. Stjórnin telur lítið atvinnuleysi kannski stærsta vandamál þjóðarinnar um þessar mundir.