Eldhús sannleikans og klósett dauðans

eldhus-daudansMatreiðsluþáttur Orkuveitunnar er að slá í gegn á heimsvísu. Stífustu hreinlætisreglur á þeim tveimur vinnustöðum sem ég hef starfað á hér í Noregi, sjúkrahúsi og matvælaframleiðslufyrirtæki, virðast sem húsreglur í blokk í samanburðinum en eru þó ekkert grín. Í núverandi starfi mínu hjá Nortura er starfsfólkið til dæmis sífellt að skipta um föt. Maður fer til dæmis ekki út úr framleiðslusalnum án þess að skipta um alklæðnað og þvo og sótthreinsa hendur. Sérstökum skóm er meira að segja úthlutað fyrir ferðir í kaffi og mat og nefnast hléskór (n. pausesko).

Þetta gerir það að verkum að klósettferðir eru ekkert grín enda eru þær farnar út fyrir öll framleiðslusvæði. Í kjöthreinlætisnámskeiði, sem tekið er á vefnum og er skilyrði starfs hjá Nortura, er meira að segja að finna ítarlegar leiðbeiningar um kamarferðir og spurt út í þær á lokaprófinu. Brot námskeiðsins er eins konar tölvuleikur þar sem maður stýrir kalli um klósettið. Ekki beint á háskólastigi en reyndar margt fróðlegt um reglur í kjötiðnaði sem ég þekkti lítið til.

Ein bylting við klósettin í Nortura er að til þess að forðast að snerta þau með berum höndum er svört skífa með skynjara ofan á klósettinu. Ætlast er til að gestir haldi útréttum lófa í 3 – 8 cm hæð yfir þessu og þá sturtar klósettið niður. Miði með leiðbeiningum um þetta er staðsettur fyrir aftan mann þegar maður horfir á klósettið svo ég byrjaði á að rífa skífuna af. Ekki virkaði það. Kom ég þá auga á gráa málmstöng á veggnum og þóttist nú hafa leyst gátuna. Þetta reyndist hins vegar (tómur) klósettrúlluhaldari og svignaði hann þar til hann hrökk af veggnum. Ég snerist þá á hæli og hugðist laumast út án þess að sturta (enda bara minni aðgerðin á ferðinni) og blöstu þá leiðbeiningarnar við mér. Má ég þá frekar biðja um gömlu ljósnemana sem voru bylting á almenningsklósettum fyrir 30 árum. Alveg einkennandi fyrir Norðmenn að þurfa að vera með sitt eigið kerfi.

Annars fylgir því hálfgerður tómleiki að vera hættur að skúra á háskólasjúkrahúsinu. Þetta var býsna þægileg vinna fyrir utan nokkur meltingartengd tilfelli sem ég hef áður lýst í pistlum hér og þarna verð ég nú að játa að ég heyrði minn fyrsta og eina ræstingabrandara. Hann fjallaði um konu sem vann við þrif í margra hæða skrifstofuhúsnæði og endaði alltaf á að þrífa lyftuna á hverri hæð sem var auðvitað alltaf sama lyftan. HA HA HA!!! Þessi þótti óborganlegur í ræstingadeildinni og vildu margir meina að sagan væri sönn.

Athugasemdir

athugasemdir