Ekki bara olía…

cat of deathÞað er óhætt að fullyrða að röravöllurinn hjá ConocoPhillips sé uppspretta lífs. Þarna halda nokkrir ljónstyggir villikettir til og sjást annað slagið á hlaupum milli rörastæða. Ljóst er að þeir leggja metnað í viðhald stofnsins þar sem merkilegur atburður gerðist í dag. Þegar við unnum við að hífa rör upp úr röragámi, svonefndum basket, varð Bjørn Dyrdal var við eitthvað kvikt undir neðsta röralaginu. Hann öskraði af hræðslu þar sem hann taldi að um stóra rottu væri að ræða en raunin var önnur. Í ljós komu þrír kettlingar sem einhver villilæðan hefur gotið þarna í gámnum en hann hafði staðið á planinu hjá okkur í nokkrar vikur. (MYND: Undirritaður með einn bröndóttan í fanginu./Robert Hedin Ahlning)

Viðstaddir náðu í þykkum vinnuhönskum að fiska bítandi, klórandi og hvæsandi nýburana upp og koma þeim ofan í kassa á kaffistofunni þar sem þeim var veittur almennur beini í formi mjólkur. Allir höfðu ferfætlingarnir svo fengið ný heimili hjá starfsmönnum NorSea Group og Tenaris Global Services áður en dagurinn var liðinn (ég tek fram að mitt heimili var ekki eitt af þeim, ég er með kattaofnæmi).

Athugasemdir

athugasemdir