Einn, tveir og 40 – miðarnir í hús

portgalSumarið verður óvenjusnemma á ferð í vor þar sem ég var rétt í þessu að ganga frá kaupum á flugmiðum til sælureitsins okkar í Albufeira í Portúgal í lok mars. Það kemur ekki til greina að lífsklukkan slái 40 annars staðar en á ströndinni með risavaxinn piña colada í annarri og tvöfaldan G&T í hinni (eins gott að ég hætti að reykja fyrir 14 árum, annars væri vesen með að höndla rettuna). (MYND: Af þakpallinum hjá okkur í júlí 2013, verðum í sömu íbúð í vor.)

Þar sem ég er með eindæmum vanafastur maður og finnst þar að auki engin skynsemi í að vera að hrófla eitthvað við hlutunum ef þeir virka á annað borð dveljum við auðvitað í sömu íbúð og í þessu seiðmagnaða fríi í fyrrasumar. Leigan er ekki há þar sem nú teljumst við orðin fastakúnnar hjá honum Andrew vini okkar auk þess sem við erum rækilega utan háannatíma, sem sagt off season eins og Snorri Sturluson hefði kallað það í Heimskringlu hefði hann talað um fríin sín þar. Stefnir því í sólríka og letilega átta daga um mánaðamótin mars-apríl þar sem verkefnin verða ekki mikið flóknari en að ákveða hvern af þessum um það bil 530 veitingastöðum í Albufeira skuli vanhelga næst en segja má að við höfum átt býsna góðar stundir á sumum þeirra í fyrra (Pizzaria O Terraco, La Barca og Bizarro Bar ofarlega á þeim lista!).

Í raun verður um netta Evrópureisu að ræða þar sem við byrjum ferðalagið með nótt í Ósló, og væntanlega nokkrum glösum með Birni Skorra Ingólfssyni, gömlum skóla- og drykkjubróður (ef hann verður ekki fluttur hingað á vesturströndina áður), en verðum svo yfir nótt í Frankfurt á leiðinni til baka en uppáhaldsbarinn minn þar í bænum er einmitt staðsettur í kjallara Seðlabanka Evrópusambandsins svo hver veit nema maður skutli inn aðildarumsókn fyrir Gunnar Braga í leiðinni svona rétt til að stríða honum aðeins.

Í þetta allt saman er þó hálfur vetur af vinnu, bindindissemi, heilsufæði, kickboxi, líkamsrækt og lífinu almennt svo það er best að reyna að njóta þess í botn að vera langt innan við fertugt í níu og hálfa viku í viðbót. Fimmtudaginn 6. febrúar hefjast svo framkvæmdir við sjálft fertugshúðflúrið á Studio Instinct í Stavanger en það mun krefjast nokkurra heimsókna þangað. Það er nýjasta skrautfjöðrin í hatti stofunnar, Emil Czekala, sem hefur tekið verkefnið að sér en sjálft viðfangsefnið er hernaðarleyndarmál fram að frumsýningu þess síðari hluta marsmánaðar. Ég hvet áhugamenn um blek og nálar til að skoða verk Emils á Facebook-síðu Studio Instinct sem ég hlekkja í hér að framan, þarna er verulega fær listamaður á ferð enda ekki allir sem fá að krukka í mig með nálum (reyndar slatti ef ég tel heilbrigðisstarfsfólk með en bara tveir flúrarar hingað til).

Athugasemdir

athugasemdir