Atli Steinn Guðmundsson er örvhentur lífskúnstner í hrútsmerkinu, fullur bjartsýni, orku og lífsgleði. Hann er Garðbæingur að uppruna en býr í hinni fornfrægu og fögru borg Stafangri í Noregi þangað sem hann forðaði sér undan bankahruni og atvinnuleysi á Íslandi. Atla leiðist ekki að drekka brennivín, einkum gin og tónik, og barst í þennan heim laugardaginn 30. mars 1974 klukkan 15:33, þá 16,5 merkur og 55 cm. Hvort tveggja hefur breyst síðan.
Atli lauk vorið 2010 MA-prófi í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands. Af öðru skólabrölti Atla má nefna BA-próf í íslensku með lögfræði sem aukagrein árið 2000, próf í hagnýtri fjölmiðlun 2002 og Nordplus-skiptinám í blaðamennsku við Háskólann í Helsinki vorið 2003 þar sem eistneskt 80% vodka var teigað sem enginn væri morgundagurinn. Stefnan er tekin á doktorsnám í rafmagnsguðfræði, þökk sé hinni þverfaglegu maníu allra háskóla.
Atli greindist með bakhár fyrir nokkrum árum og hefur ekki legið á liði sínu við að reyna að útrýma þessu viðurstyggilega fyrirbæri úr hinum vestræna heimi, ýmist með vaxi eða háreyðingarkremi. Hann hefur einnig stofnað stuðningshóp fólks með bakhár en er einn í honum sem komið er. Það er mjög erfitt að stíga fram og tala um bakhár.
Fyrir utan drykkju og saurlifnað hefur Atli helst áhuga á íslenskum fornbókmenntum, austrænum bardagalistum og íslensku sauðkindinni (enda í hrútsmerkinu). Hann stundar flest framangreint, nema sauðfjárræktun, og öðlaðist svart belti 1. dan í karate hjá Karatefélaginu Þórshamri í mars 2007. Atli lifir í sífelldum ótta við að fá appelsínuhúð og þolir ekki ólífur (sérstaklega svartar, oj!).