Ég kemst í hátíðarskap…

rica forum…þótt úti séu snjór og krap. Hljómar textinn ekki einhvern veginn þannig? Mitt hátíðarskap er til komið vegna yfirvofandi drykkju á morgun, laugardaginn 12. mars. Eftir tíu vikna brakandi þurrk lýkur bindindi ársins loksins með ísköldu gini í tónik klukkan 17:00. Þessi merkisatburður mun eiga sér stað á barnum á 22. hæð Rica Forum-hótelsins sem stendur handan við hverfisvatnið okkar, Mosvatnet, og er hæsta hótelbygging í Rogaland. Klukkan 18 eigum við svo pantað borð þarna í turninum og munum njóta veitinga og fagurs útsýnis yfir Stavanger og nágrenni…ef ekki verður glórulaust veður.

Til stóð að fara sérstaka hátíðarferð í ríkið í dag til að fylla á lagerinn fyrir helgina en ég ákvað á síðustu stundu að fresta því til morguns, svona til þess að eiga það eftir. Ég hef ekki komið inn í áfengisverslun síðan í fríhöfninni þegar við komum hingað frá Íslandi upp úr áramótum og má því búast við að þessari verslunarferð muni fylgja djúpur og þögull fögnuður. Dagurinn verður ánægjulegur hvað sem öðru líður. Hér mun að sjálfsögðu birtast myndskeið af því þegar ég rýf bindindi ársins svo lesendur geti samfagnað.

Í dag tók ég þátt í mínu fyrsta atvinnuviðtali sem vinnuveitandi og var það í senn skelfing og gleði. Nú hellast yfir umsóknir vegna sumarstarfa í ræstingadeildinni og ég verð að gjöra svo vel að taka minn skerf af því ætli ég ekki að leysa allt mitt fólk af sjálfur. Reyndar snerist viðtalið í morgun ekki um sumarstarf heldur varanlegan mannafla í mína deild þar sem álagið er einfaldlega að aukast. Ég fer meðal annars með stjórn þrifa á byggingasvæðum við sjúkrahúsið og nóg er af þeim þar sem stofnunin mun margfaldast að stærð næstu þrjá áratugi í takt við lýðfræðilegar spár um almenna öldrun og heilsufar á svæðinu.

Þarna var sem sagt kominn ungur maður frá Mið-Austurlöndum með fimm ára búsetu í Noregi, ágæt meðmæli og ekki lakari norskukunnáttu en ég að minnsta kosti. Vandamálið var hvaða upplýsingar ég vildi fá frá honum. Ég verð að játa það að persónulega er mér eiginlega skítsama um aldur og fyrri störf fólks ef það nennir að vinna eins og manneskjur (og þá ekki bara frá líffræðilegu sjónarmiði) og er ekki alltaf veikt heima hjá sér eða ‘veikt’ heima hjá sér þegar er starfsdagur í leikskólanum sem börnin þess ganga í og það tímir ekki að taka launalausa leyfið sem það á rétt á vegna málsins (bíðið bara þangað til ég fer á eftirlaun, þá fer hin myrka tölfræði norskra veikindafjarvista beint til Wikileaks – ómerkilegir lekar frá Írak og Afganistan verða eins og Stundin okkar í samanburði!).

Ég renndi leiftursnöggt yfir þúsund atvinnuviðtöl lífs míns í huganum, frá 1990 til dagsins í dag, og reyndi að taka saman helstu spurningar sem mér var gert að svara. Margir vildu fá að vita um helstu kosti mína. Það er ömurleg spurning! Hver er verri en þú sjálfur í að telja upp kosti þína? Enginn. Áhugamál? Álíka heimskulegt, vinnuveitandi hefur ekkert við þær upplýsingar að gera enda hef ég nánast alltaf logið eða sagt hálfan sannleikann þegar þetta hefur komið upp. Ég hef ekki áhuga á neinu vinnutengdu. Innst inni vil ég helst ekki vinna heldur bara fara á eftirlaun og drekka brennivín. Vinna er bara eitthvað sem maður þarf að ganga í gegnum til að komast þangað.

Þess vegna spurði ég náungann bara hvort hann væri ekki hress og sagði honum að mæta á þriðjudaginn klukkan 9. Þá reyndist hann hafa fullt af spurningum. Ein þeirra var hver byrjunarlaunin væru. Ég hafði ekki hugmynd um það. Ætli hann mæti nokkuð á þriðjudaginn?

Athugasemdir

athugasemdir