Ég gæti átt einn vinnudag eftir um ævina

harold campingÞessi pistill gæti orðið sá síðasti á atlisteinn.is. Svo verður alla vega klárlega ef eitthvað er að marka hárnákvæma spá Harold Camping um að heimsendir verði núna um helgina, nánar tiltekið klukkan sex á laugardagskvöld…sennilega að vesturstrandartíma Bandaríkjanna svo reikni nú hver sem er. Hálfömurlegur tími, mánudagsmorgunn er eini vitræni tíminn fyrir endalokin, helst rétt áður en vinna hefst. En ekki stjórna ég þessu. (MYND: Þetta er maðurinn. Ég þarf að fá mér svona skugga, hann er eins og af Mister Burns í Simpsons.)

Camping þessi rekur 66 kristilegar útvarpsstöðvar undir merkjum Family Radio um öll Bandaríkin og er greinilega búinn að kynna sér málin. Samkvæmt kenningu hans byrjar þetta allt með því að Kristur snýr aftur til jarðarinnar, loksins, og tekur að dæma lifendur og dauða. Þessu á að fylgja móðir allra jarðskjálfta. Svo verða örfáar hræður, tvær eða þrjár milljónir, valdar úr mannkyninu og ferjaðar til himna áður en ósköpin dynja á, þar á meðal væntanlega Harold sjálfur. Ég er ekki búinn að liggja í fræðum Campings en skilst þó að þetta verði ekki allt búið á laugardaginn. Þá eigi hamfarirnar að hefjast en svo ljúki þeim upp á dag fimm mánuðum seinna, 21. október, þegar guð eyðir jörðinni. Maður veltir fyrir sér hvort það borgi sig að halda áfram að skipuleggja sumarfríið.

Eitt af mörgu merkilegu við Camping er að hann er verkfræðingur frá University of California í Berkeley en virðist lítið hafa sinnt þeim fræðum þar sem trúarútvarpið hefur átt hug hans og hjarta frá stofnun þess árið 1961. Independent fjallar meðal annars um dómsdaginn um helgina í þessari grein og birtir þar grundvöll kenningar Campings. Hann segist hafa legið í Biblíunni í 70 ár og sé nú kominn með þetta. Á laugardaginn séu 722.500 dagar síðan Kristur var krossfestur 1. apríl árið 33. Talan 722.500 er grundvallarþáttur í þessu þar sem hún fæst þegar heilögu tölurnar 5, 10 og 17 eru margfaldaðar hver með annarri í tvígang, að sögn Campings.

Svekkjandi að maður fattaði þetta ekki sjálfur. Biblían búin að vera uppi í skáp hjá mér í mörg ár með öllum þessum upplýsingum. Ég hef ákveðið að trúa þessu. Eitt er þegar venjulegir trúarofstækismenn spá heimsendi en þegar þeir eru verkfræðingar líka líst mér ekki á blikuna.

Við sjáumst á efsta degi.

Athugasemdir

athugasemdir