Ég er útrásarvíkingur

kronaUndanfarna mánuði hef ég fylgst af öfuguggakenndum (ísl. slett. pervertískum) áhuga með gengi íslensku krónunnar og í dag fannst mér það til dæmis hið besta mál að ein íslensk króna með þorski og bergrisa væri janfvirði 21,20 norskra króna en ein norsk króna er reyndar með gati, sbr. hið bráðsmellna orðatiltæki að eiga ekki krónu með gati. (MYND: Vísir.is)

Þetta helgast auðvitað af Íslandsheimsókn okkar eftir tvo mánuði en þá ætlum við að færa hin norsku laun okkar til Íslands og éta og drekka brennivín fyrir þau og moka um leið erlendum gjaldeyri inn í landið í hina rauðhærðu Stein-grímu sem fjármálaráðuneytið ber þessa dagana.

Ég fæ ekki annað séð en að með þessu hafi ég tekið stöðu gegn krónunni eins og það er kallað en slíkt taldist víst fyrir skemmstu glæpur gegn mannkyni. Menn sæju nú kannski gegnum fingur við mig um þetta, svona vegna sumarfrís og Íslandsheimsóknar, en þetta er auðvitað langt í frá mín eina synd. Í maí í fyrra skipti ég um kennitölu og flutti lögheimili mitt til útlanda og það sama daginn. Lítum þá á þessa brotasamsteypu (sbr. ritið Viðurlög við afbrotum, Jónatan Þórmundsson, Bókaútgáfa Orators 1989, ártalið eftir minni reyndar):

Tók stöðu gegn íslensku krónunni
Skipti um kennitölu
Flutti lögheimilið til útlanda
(sama dag)

Ég hugsa að hinn mjög svo sérstaki saksóknari íslenska efnahagshrunsins væri ekki lengi að komast að niðurstöðu: Ég er útrásarvíkingur, rett og slett eins og Norðmenn segja. Á maður bara að lifa við þetta??
dn
Viðtal Dagens Næringsliv við Guðmund Ásmundsson og frú, sem eru að flytja til Noregs, er eins og talað út úr mínum munni fyrir utan að ég hætti að prjóna um leið og ég var búinn í handavinnu í 3. bekk í Flataskóla. Mikið skil ég þau hjón. Athugasemdakerfi DN logar af ummælum norskra lesenda, margar þeirra eru býsna hnyttnar. Til dæmis þessar:

Þessi byrjar:

Mistenkelig mange artikler om ingeniører ifm jobb for tiden – om ingeniører som bør komme eller kommer til norge for arbeid. De fleste arbeidsledige på Island, med høyere utdannelse, er vel økonomer?

Þá svarar þessi:

Det siste vi trenger er islandske økonomer. Vi har nok med våre egne pappagutter, og så har islandske finansfolk vist for hele verden hvor udugelige de er.

Og sá þriðji bætir við:

Jeg tror ikke islandske økonomer er dårligere enn norske økonomer. islandske økonmer er faktisk bedre – de fikk gjennomført mye av det norske økonomer prøver på…

Seinna í umræðunni skrifar svo einn til:

Islendingene har selv valgt å bruke Milton Friedmans økonomiske ideer som rettesnor for sin økonomiske politikk, der deregulering spiller en sentral rolle.

Það er góð skemmtun að lesa athugasemdir Norðmanna við grein DN í heild. Mæli með þeim.

Athugasemdir

athugasemdir