Ég er Kentucky-fíkill og viðurkenni það

Ég heiti Atli Steinn Guðmundsson og ég er Kentucky-fíkill (margradda englakór: Hæ, Atli). Égsanders velti því stundum fyrir mér hvort einn djöfullegan veðurdag muni ég heyra sjálfan mig fara með þessi orð á einhvers konar stuðningsfundi fólks sem einfaldlega getur ekki komist í gegnum einfalda vinnu-/skólaviku án þess að missa sig gjörsamlega í næsta útibúi KFC, búllunnar sem ofurstinn með góðlega brosið, Harlan Sanders, kom á fót með þrautseigju og vinnusemi í Corbin í Kentucky á fyrstu árum kreppunnar miklu, rétt upp úr 1930.

Ef það er eitthvað sem kemst nálægt þeirri nautn sem gin & tónik veitir mér er það hressandi ferð á KFC sem lyktar með því að ég skríð á fjórum út með kviðinn við jörðu…en sæll. Oft hefur það sannast að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og það fékk ég að reyna vorið 2003 þegar ég brá mér í austurátt til náms og dvaldi annarlangt við blaðamennskudeild Háskólans í Helsinki. Finnar eiga sér ekki KFC sem er viss ljóður á þeirra ráði auk þess að vera hrein skömm fyrir veitingahúsaflóru landsins.

Þetta var áður en Kristall með sítrónubragði bjargaði mér frá neyslu sykraðra gosdrykkja og enn var ég svo suddalegur Mixfíkill að ég tók með mér átta lítra af Mixi (nú frá Egils en fyrir margt löngu frá Sanitas) til Finnlands og héldu þarlendir tollstarfsmenn að ég væri mjög veikur á geði þegar ég dró flösku eftir flösku af heiðgulum vökva upp úr farteski mínu sem auk þess voru skreyttar með mjög vafasömum teiknuðum fígúrum í líki ananas og eplis sem stunduðu knattspyrnu og aðra fánýta iðju.

Mér auðnaðist að láta drykkinn gula endast mér nánast alla önnina en nú bar svo við að ég uppgötvaði nýtt hryllilegt tómarúm innra með sjálfum mér: Það var ekki ein einasta KFC-búlla finnanleg í þverri og endilangri höfuðborg hins sérkennilega Finnlands. Heldur ekki Burger King sem mér er líka nokkuð hlýtt til.

Svo ég stytti nú annars langa harmsögu lá á tímabili við því að ég hyrfi frá námi og flygi unnvörpum vestur um haf til Íslands í faðm ofurstans góðlátlega. Það var bara ekki nokkur vinnandi vegur að komast í gegnum heila önn án KFC fyrir mann sem sér þetta fitubrasaða góðgæti í hillingum eftir rúmlega dags fráhvarf!

Sennilega var það brennivínið blessað sem hjálpaði mér yfir verstu hjallana og langar voru næturnar er ég lá með fullkomnu óráði í rúmi mínu og fannst sem ég sæi gríðarstóran kjúkling í gervi Harlan Sanders vitja mín og kveða dróttkvæði við raust sem öll snerust um leggi, franskar og Hot Wings. En þetta hafðist. Einhvern veginn rann sá drottins dagur er ég kenndi fósturjarðarinnar á ný og vittu það, lesandi góður, að Hafnfirðingar tala enn um þann dag þegar KFC í Hafnarfirði varð furðulegu gjörningaveðri að bráð sem virtist berast með leifturhraða frá Keflavíkurflugvelli. Það var ein satanísk máltíð sem þar átti sér stað.

Athugasemdir

athugasemdir