Mennirnir grófu þrenn göng sem hlutu viðurnefnin Tom, Dick og Harry og tókst 76 stríðsföngum að flýja búðirnar með því að skríða tæpa 120 metra gegnum göngin Harry og hverfa í skóglendi nálægt búðunum aðfaranótt 25. mars 1944. Flestir náðust flóttamennirnir þó aftur og Hitler fyrirskipaði að 50 þeirra skyldu teknir af lífi öðrum stríðsföngum til viðvörunar.
Þeir fáu úr hópnum sem enn lifa komu saman við op flóttaganganna í Póllandi í gær, kveiktu á kertum og minntust fallinna félaga. Frank Stone frá Derbyshire í Bretlandi segir í viðtali við Telegraph að hans hlutverk hafi meðal annars verið að losna við jarðveginn sem varð til við gröftinn og það hafi verið erfiðasta verkefni hans í lífinu. Hann sagði einnig að atriðið í myndinni þar sem einn fanganna reynir að klifra yfir girðingu en er skotinn til bana af vörðunum hafi verið byggt á raunverulegu atviki. „Þetta voru allt úrvalsmenn,” sagði Stone.