Ef ég verð dauður eftir mánuð…

aloe veraÞað verður aldeilis breyttur lífstíll hér á heimilinu ef marka má nýjustu línuna í hollustuvörum sem tekin var í notkun hér en það er aloe vera í nánast öllum birtingarmyndum sínum frá alþjóðasamsteypunni Forever Living Products. Hljómar þetta eins og Herbalife? Jæja, helsti munurinn er samt að maður hefur einhverja hugmynd um aloe vera-jurtina og áhrif hennar auk þess sem upphafsmaður þessarar línu virðist ekki enn hafa drepið sig á eigin framleiðslu eins og Herbalife-náunganum tókst af mikilli elju. (MYND: Tannkremið fyrir miðju. Þetta er ekki kannabistannkrem þótt skreytingin á túpunni gæti gefið það til kynna.)

Frá og með deginum í dag drekk ég eitt staup af einhverju sulli sem á að dauðhreinsa í mér þarmana auk þess að sjá mér fyrir öllum vítamínum og steinefnum, tek fjólubláa amínósýruduftblöndu á kvöldin, hressi upp á varirnar með aloe vera-varasalva, tek inn omega 3-fitusýrur sem bræddu sig í gegnum frauðplastglas á stofuborðinu hjá okkur á kynningu í gær og bursta tennurnar með aloe vera-tannkremi!!!

Geri aðrir betur. Jæja, við erum reyndar ekki búin að kaupa þessa omega 3-brennisteinssýru enn þá, ætlum að klára fyrst stútfulla krukku sem við vorum nýbúin að kaupa, en allt hitt er ólogið.

Vinnufélagi Rósu er á kafi í þessu og hann og annar til sem kom hér í gær eru að byggja upp ógurlegt aloe vera-veldi, heimsyfirráð eða dauði. Við nennum sennilega ekki að vera að gabba saklaust fólk í þetta og græða á því peninga en teljum óhætt að kaupa vörurnar til reynslu. Tókum því smápakka. Á móti kemur að við getum þá hætt að kaupa fjölvítamín og omega 3-perlur svo við erum í raun bara að skipta um bætiefni. Reyndar er þetta í fyrsta sinn á ævinni sem ég skipti meðvitað um tannkremslínu, ég hef nú bara gripið ódýrustu túpuna miðað við stærð í Hagkaup, Bónus og hér í Noregi í Kiwi og Coop og flestar tennurnar hanga nú enn í kjaftinum á mér.

Ég á nú ekki von á neinni sprengingu í lífsgleði og orku, gamla kaffið á áfram eftir að vera það fyrsta sem ég teygi mig stynjandi og emjandi eftir á morgnana til að komast út úr meðvitundarleysisþoku nætursvefnsins en það er fróðlegt að hleypa svona nýjum straumum inn í lífið af og til. Sérstaklega bíð ég eftir þeirri miklu byltingu í hægðum sem vinnufélaginn góði lýsti hér á ákaflega grafískan hátt nánast í hljóði og myndum í gær og ekki verður farið nánar út í af velsæmisástæðum og í samræmi við stranga ritstjórnarstefnu atlisteinn.is.

Á sama tíma, en algjörlega ótengt aloe vera-tilrauninni, náði ég mér í vænan dunk af Pure Brutal Gainer frá Nordic Power og Magna Power-kreatíni frá Olimp hjá honum Andre í City Gym í gær, svona til að fagna því að ég er um það bil að ná einni skróplausri viku í ræktinni eftir brennivínslegið sumarfrí sem fjallað hefur verið um hér á síðunni. Hér er því gert ráð fyrir stormi…og glampandi aloe vera-tönnum.

Athugasemdir

athugasemdir