Drykkjufélagið Sti – in memoriam

bombayiiiÉg var að blaða í gömlum Word-skjölum hjá mér í kvöld og fann þá óforvarandis plaggið sem gefur að líta hér að neðan, lög Drykkjufélagsins Sti. Sti er stytting á Gústi sem er gælunafn Ágústs Þórhallssonar, gamals húsvísks félaga míns úr lagadeild HÍ fyrir tæpum tveimur áratugum. Við héldum hópinn lengi vel nokkrir gamlir félagar úr lögfræðinni og hittumst ársfjórðungslega til að sturta ofan í okkur brennivíni og rifja upp minningar úr lagadeildinni þar sem bindindi og reglusemi voru talin ömurleg gildi og lítt í heiðri höfð svo sem margir málsmetandi lagaspekingar nútímans geta vitnað um.

Þessi lög setti Drykkjufélagið Sti sér árið 2006 eftir að hafa verið starfrækt um nokkurra ára skeið:

Lög Drykkjufélagsins Sti

1. gr.

Félagið heitir Drykkjufélagið Sti, heimili þess og varnarþing er í Reykjavík og nærsveitum.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að stuðla að hóflegri neyslu áfengra drykkja í góðra manna hópi og fara yfir stöðuna, þ.e. ræða lífið og málefni samfélagsins almennt, en vinna um leið gegn ofdrykkju og hvers konar misnotkun áfengra drykkja og áfengisbölinu almennt.

3. gr.

Félagatal Sti telur stofnfélaga auk félaga sem teknir hafa verið inn í félagið á síðari stigum vegna tengsla við ákveðna félagsmenn og sótt hafa drykkjur félagsins reglulega. Enginn getur talist félagi í Sti nema að fengnu samþykki allra sitjandi félaga.
Heimilt er einu sinni ár hvert að halda sérstaka gestadrykkju og bjóða til hennar aðilum sem ekki eiga fast sæti í Sti. Félagsmenn setja nánari reglur um tímasetningu og framkvæmd gestadrykkju.

4. gr.

Sti skal koma saman eigi sjaldnar en fjórum sinnum ár hvert og skulu samkomur miðast við ársfjórðung. Heimilt er að víkja frá síðarnefnda skilyrðinu og færa samkomur yfir mörk ársfjórðunga gangi óheppilega að festa dagsetningu vegna anna félagsmanna enda veiti þeir allir samþykki sitt fyrir þeim ráðahag.
Leitast skal við að velja samkomudagsetningar með það að leiðarljósi að allir eða sem flestir félaga sjái sér fært að sækja samkomu.

5. gr.

Félagsmenn skiptast á að halda samkomur félagsins á heimilum sínum eða íverustöðum.

6. gr.

Félagsmaður skal að forfallalausu sækja samkomur í Sti. Vanræki félagsmaður ítrekað að sækja samkomur án þess að gild ástæða liggi að baki fjarvistum hans eða hann lætur sér sannanlega í léttu rúmi liggja hvort samkomur eru sóttar af hans hálfu eður ei er félaginu heimilt að veita honum aðvörun telji meirihluti félagsmanna hinn fjarverandi ekki hafa fært fram viðhlítandi skýringar á fjarveru sinni.
Tvær eða fleiri aðvaranir geta orðið grundvöllur brottvísunar félagsmanns úr Sti, tímabundið eða til langframa.
Ávallt skal gefa félagsmanni færi á að bæta ráð sitt áður en ákvörðun er tekin um viðurlög þau er greinir í 2. mgr.

7. gr.

Verði Drykkjufélagið Sti lagt niður skulu eigur þess færðar Sjúkrahúsinu Vogi til varðveislu uns annað félag með sömu markmið verður stofnað í Reykjavík eða nærsveitum.

Reykjavík, 10. júní 2006              

Drykkjufélagið Sti

Athugasemdir

athugasemdir