District 9 – félagsfræðilegt meistaraverk

districtÞví fer fjarri að ég sé alltaf sammála hinum gamalreynda kvikmyndarýni Morgunblaðsins, Sæbirni Valdimarssyni, en ég fellst alveg á það með honum að skreyta kvikmynd Neills Blomkamp, District 9, fjórum stjörnum af fimm mögulegum. Ekki rekur mig minni til að hafa heyrt nafn leikstjórans áður, hann er fæddur árið 1979 í Jóhannesarborg, þar sem myndin gerist, og nam við kvikmyndaskólann í Vancouver. Hann skrifar handritið ásamt Terri Tatchell, sem kemur frá sama skóla, en helst undrast ég að hvorugur þessara ágætu manna (ef Tatchell er karlmaður) virðist hafa menntun á sviði félagsvísinda.

Handritið (og myndin) gæti nefnilega nánast staðið undir sér sem doktorsverkefni í félagsfræði. Kenningar Durkheims (1858 – 1917) um þéttbýlissamfélög, verkaskiptingu og virknihyggju spretta þarna nánast ljóslifandi fram, siðrofskenning Roberts Merton og jafnvel sjálfur konungurinn, Karl Marx, er ekki fjarri með átakakenningar sínar, þ.e. að átök eða mótsagnir séu drifkraftur þróunar í samfélaginu.

Ólíkt flestu sem draumaverksmiðjan í Hollywood mokar yfir okkur um heimsóknir utanjarðarmannkyns og hugsanlegar afleiðingar þeirra er hér komið stykki sem er nánast fræðilega skothelt frá félagslegu sjónarmiði, eitthvað sem hefur gjarnan alveg gleymst að sinna í öðrum myndum. Kannski er öllum sama um það, margir vilja auðvitað fara í bíó til að fá sér popp og kók og upplifa hugarflug einhverra leikstjóra og handritshöfunda, tölvubrellur og stýrðan ótta án þess að hafa frekari áhyggjur af því (sá sem þetta ritar er einmitt mjög oft í þeim gír!).

Hins vegar er það alltaf jafnánægjuleg upplifun þegar eitthvert stykkið rís óvænt upp úr meðalmennskunni og kemur manni rækilega á óvart. Í District 9 hafa menn hreinlega unnið heimavinnuna sína (hér er ég að ræða um félagsvísindalega hlið myndarinnar, alls konar hlutir aðrir í henni fara út í tómar öfgar – þó þannig að hafa megi af því töluvert gaman).

Ég tek því undir gagnrýni Sæbjarnar í Morgunblaði gærdagsins og hvet fólk til að skella sér í bíó með gleraugu Durkheims á nefinu.

Athugasemdir

athugasemdir