Dimmuborgir og önnur undur

dimmuborgirÉg lofaði kannski aðeins upp í mínar stuttu ermar þegar ég hét sögum af Mývatni og Ásbyrgi. Þetta var allt ósköp fagurt og yfirþyrmandi en í sjálfu sér ekki frá miklu að segja. Við tjölduðum innan um eitthvert Ítalahyski við Mývatn og fórum þaðan í göngu um Dimmuborgir, að því er mig minnir í fyrsta skipti sem ég kem þangað. (MYND: Kirkjan í Dimmuborgum. Kynngimagnaður staður.)

Magnaður staður og ægifagur og hápunkturinn kannski að sjá hina svonefndu Kirkju sem þar trónir eins og tröllaukinn minnisvarði um trú, líf og dauða. Frá Mývatni ókum við eftir næturdvöl yfir í Ásbyrgi og reistum tjaldbúðir. Fyrir utan landslagið var ef til vill minnisstæðast að hitta þar þýskan doktorsnema í sagnfræði, Benittu Schmidt frá München, sem starfar sem bókasafnsvörður samhliða námi sínu. Spurði hún okkur mjög út í það hvernig okkur þætti að hafa fengið nýja ríkisstjórn á mettíma og ég spurði hana hvernig henni líkaði Angela Merkel sem kanslari. Hvorugt gat svarað kinnroðalaust.

Fóru leikar svo að við ókum doktorsnemanum til Húsavíkur daginn eftir og fengum okkur kaffisopa á Gamla bauki, einu nafntogaðasta kaffihúsi Húsvíkinga. Ókum við svo í sól, grenjandi rigningu og flestum öðrum veðurtegundum til Reyðarfjarðar þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti hjá Ásgeiri og Jónu Dís fjóra yndislega daga.

Á sama tíma var keppnin Austfjarðatröllið haldin þarna á fjörðunum og lagði Jón Valgeir Williams, gjarnan nefndur Hvelið, því leið sína austur um fjörðu. Ásgeir, Jón og ég störfuðum eitt sinn saman á Vegas og það gerði einnig Georg Rúnar Ögmundsson, mikið valmenni sem stjórnar öryggismálum Alcoa af myndugleik og festu. Vildi það því svo til að við fjórmenningarnir vorum saman komnir á einum og sömu svölunum á tímabili og er ekki ofsagt að þar féll margt glitrandi tár af hvarmi þegar ljúfsárar æskuminningar liðins áratugar voru rifjaðar upp. Tár, bros og bekkpressa (b-in þrjú ef ég á að stæla auglýsingar eldsneytisokrara landsins).austfjtroll (MYND: Gamla Vegasgengið. Frá vinstri: Georg R. Ögmundsson, Jón Valgeir Williams (Hvelið), ég, ef mig mætti kalla, og Ásgeir Elíasson.)

Til að gera stutta sögu en gríðarlegan akstur sem minnst þreytandi má geta þess að lokum að eftir frábæran tíma meðal hinna reyðfirsku var ekið til Skaftafells og dvalið næturlangt meðal Íslenskra fjallaleiðsögumanna þar sem minn eðalvinur og fyrrum skólabróðir Björgvin Hilmarsson starfar og þaðan rennt til höfuðstaðarins með viðkomu í Vík í Mýrdal þar sem eggjum og beikoni voru gerð góð skil.

Þar með var hringnum lokað og 2.155 kílómetrar lagðir að baki með glæsibrag. Hver þarf sólarstrendur þegar hann á íslenska náttúru og gin og tónik? Ekki ég.

Athugasemdir

athugasemdir