Ef þessi mynd fær ekki World Press Photo-verðlaunin 2011, ’12 og ’13 þá veit ég ekki hvað. Þetta er pabbi í ræktinni! Jú jú, segi það og skrifa, Guðmundur Elíasson heimilislæknir, 71 árs gamall hæfilega feitur maður á besta aldri, búsettur á Seltjarnarnesi, sést þarna lyfta lóðum. Á dauða mínum átti ég von frekar en þessu. Aldrei hef ég þekkt mann sem hefur jafn-megnan ímugust á íþróttum, hreyfingu og líkamsrækt og pabbi ef frá er skilinn formúlukappakstur sem hann liggur yfir í svefni sem vöku.
Myndin er tekin á Hótel Sögu en við Rósa gáfum þeim hjónum lúxusnótt þar í svítu með kvöldverði og brennivíni áður en við fluttum út í fyrra. Þetta voru þau að notfæra sér nú um helgina og létu vel af. Dagurinn eftir var svo tekinn snemma ef marka má myndirnar og rifið í lóðin. Hann er þá seigari en ég sá gamli þar sem ég rétt dregst í lóðaríið um kvöldmatarleytið á sunnudegi hafi verið haft um hönd kvöldið áður.
Til hamingju pabbi, betra er seint en aldrei!