Danskir dagar

kben13Það er stórkostlega metnaðarfullt verkefni að lýsa Bjarmalandsför okkar til Kaupmannahafnar um síðustu helgi af einhverju viti. Eins og Hunter S. Thompson skrifaði í Fear and Loathing in Las Vegas, “…but no explanation, no mix of words or music or memories can touch that sense of knowing that you were there and alive in that corner of time and the world. Whatever it meant…” (MYND: Tveir Guðmundar á Hviids Vinstue.)

Tilefnið var að minnsta kosti það sama og í lok október í fyrra, tilurð nýs tannsmiðs. Frá og með þessu hausti hefur menntastofnuninni KTS tekist að geta af sér tvö skilgetin íslensk afkvæmi í heimi tannsmíðinnar, Brynjar Má Ottósson og Aldísi Brynjólfsdóttur. Að þessu sinni var komið að Aldísi. Frumstæður en athyglisverður heili Brynjars komst ekki að annarri niðurstöðu en að spinna henni sömu örlög og hún honum föstudaginn 26. október í fyrra: Óvænt útskriftarpartý.

Þess vegna lögðum við hjónin land undir fót með millilendingu í Bergen (kemur í sérpistli) og birtumst í annað skiptið á einu ári í íbúð þeirra skötuhjúa í Ørestad, þessu óskahverfi allra arkítekta á Amager. Atburðarásin eftir það er ekki að öllu leyti ljós en auðvitað áttum við þarna frábæra helgi líkt og í fyrra skiptið. Eftir ógleymanlega nótt, sem ég man þó ótrúlega lítið eftir, var lagt í mikla pílagrímsför niður á Kongens Nytorv síðdegis á laugardag. Átti ég þar stefnumót við þrjá Guðmunda á hinni nafntoguðu Hviids Vinstue þar sem Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur drakk í sig andagiftina á fimmta áratug 19. aldar af svo miklu listfengi að barþjónarnir þar kunna enn eitt og eitt orð í íslensku.kben13-b (MYND: Einhvers staðar í nóttinni, hinn eyfirski Gary Oldman á milli okkar, Theodór Kristjánsson, krónprinsinn af Blasen, bar hinna ódauðlegu.)

Guðmundar þessir voru faðir minn og Guðmundur “Síði” Gunnarsson sem báðir voru staddir í borginni ásamt föruneyti. Með öðrum þeirra var ég síðast á þessum slóðum í mars 1998 en hinum vorið 1979 og man ég jafnlítið eftir báðum heimsóknum, í öðru tilfellinu fyrir æsku sakir. Þriðji Guðmundurinn var svo Guðmundur Páll, vinnufélagi Síða. Áttum við þarna býsna góða stund með Sigurveigu, konu föður míns, og tveimur bræðrum Guðmundar Páls sem virtust ekki hafa gert annað en drekka áfengi um sína daga. Ekki spillti fyrir að andi Jónasar sveif svo grimmt yfir vötnum að erfitt var að opna munninn án þess að fara óvart með Gunnarshólma eða önnur höfuðverk hans.

Þetta var býsna skemmtilegur fundur og ekki skemmdi einmuna veðurblíða sem alltaf setur sinn svip á þessa borg. Kvöldið náði svo sínum hápunkti í Ørestad enda ekki annnað hægt vegna hagstæðrar afstöðu við Kastrup-flugvöll þar sem tvö samkvæmisljónanna þurftu óhjákvæmilega að vera klukkan átta á sunnudagsmorgun. Okkar síðasta verk var að bera Brynjar inn í rúm og leggja hann til hinstu hvílu við hlið konu sinnar áður en við kvöddum aðra veislugesti með tár á hvörmum og hurfum á vit þess hroðalega verkefnis sem ferðalag til Stavanger, með þriggja tíma millilendingu á Gardermoen-flugvellinum í Ósló, var. Af öllum þjóðum Evrópu hefur Norðmönnum sennilega tekist að skapa flugvöll sem alltaf er upplifun að koma á einfaldlega vegna þess að það er svo gaman þegar maður fer þaðan aftur.kben13-c (MYND: Menn í sófa, olía á striga.)

Ég þakka öllum sem lögðu gjörva hönd á plóg við að gera síðustu helgi að því svartholi sem raun ber vitni og þakka almættinu fyrir að ég tók nánast engar myndir. Takk Brynjar, Aldís, Jói, Fanney, Theodór Kristjánsson (a.k.a. Gary Oldman), Pétur, Jón Björgvin, pabbi, Sigurveig, Síði, Gummi Palli og þið bræður, norski gaurinn í partýinu hjá Binna, Kiddi sem seldi okkur þessa fínu samloku og dyravörðurinn á 7-eleven einhvers staðar niðri í bæ (i lige måde for helvede!!!) auk fjölmargra barþjóna sem var stórgaman að ræða við á dönsku eftir öll hörðu t-in og d-in í norskunni. Kærar þakkir, án ykkar væri líf mitt fátækara…og eðlilegra.

Get varla beðið eftir að koma aftur í þessa ódýru Sódómu norðursins…ætla samt að þrauka fram á næsta ár, rétt svo.

Athugasemdir

athugasemdir