Dagur tungunnar og nýja starfið

jonas hallÉg fyllist óvenjumikilli þjóðerniskennd á Degi íslenskrar tungu ársins 2010 nú þegar ég er í fyrsta sinn staddur fjarri fósturjarðar ströndum. Ekki vil ég þó heldur bíða hel en vera horfinn þeim, líkt og Gunnar heitinn, þekktasti íbúi Hlíðarenda fyrr og síðar. Það er ekki svo slæmt. Ég beið í mikilli spennu daglangt eftir niðurstöðu menntamálaráðherra um hverjum verðlaun Jónasar Hallgrímssonar féllu í skaut og var bara býsna sáttur við að sjá þau í höndum Vigdísar Finnbogadóttur, forsetans sem ég ólst að mestu upp við. Mér finnst hins vegar löngu tímabært að ég fái þessi verðlaun, meðal annars fyrir þrotlausa málhreinsunarstefnu atlisteinn.is sem unir sér hvorki matar né drykkjar meðan taka þarf upp hanskann fyrir íslenska tungu. Ja, í mesta lagi eins og eins drykkjar…

Annars fer öll orka mín þessa dagana í að byrja í nýja starfinu og rífa í lóðin þess á milli. Stefnan er að leggja ekki minna en 102,5 kílógrömm af hreinum vöðvamassa á fósturjörðina við lendingu þar í desember (og fara þaðan um það bil eitt tonn ef marka má viðamikla átdagskrá sem hefst í jólahlaðborði Argentínu steikhúss og guð einn veit hvar lýkur).

Nýja starfið hefur verið eitt samfellt áfall síðan það hófst í gærmorgun, þó ekki alslæmt. Einna mestu viðbrigðin voru að skipta úr pólsku yfir í norsku eftir sláturhúsvistina. Verðandi forveri minn í starfi fer á eftirlaun 17. desember, eða pensjonerer seg eins og þeir Norðmenn kalla það. Þangað til verð ég í opplæring hjá henni sem er eins gott þar sem ég hef sennilega aldrei þurft að líta í jafnmörg horn á einum og sama vinnustaðnum. Fyrst er að læra á aragrúa tölvukerfa sem spanna allt frá launum og fjárhagsáætlunum yfir í vörupantanir og starfsmannasamtöl. Á tveimur dögum hafa mér verið úthlutuð fimm mismunandi aðgangsorð og ég man ekkert þeirra. Af hverju er ekki bara eitt ríkiskerfi, punktur?

Háskólasjúkrahúsið er um þessar mundir að innleiða nokkuð snjallt kerfi, Kompetanseportalen. Þarna eiga allir sex þúsund og eitthvað starfsmenn sjúkrahússins að skrá allar upplýsingar á borð við menntun, setin námskeið, starfsferil, félagsstörf, óskir um námskeið, mat á eigin hæfni og ég veit ekki hvað og hvað. Frá því einhvern tímann á næsta ári á þetta kerfi svo að leysa af hólmi starfsmannasamtöl og spara þannig tíma og fjármuni. Ég slepp þó ekki alveg og þarf að rúlla í gegn starfsmannasamtölum við alla mína undirmenn fyrir 1. maí næstkomandi. Ég hef alltaf verið þeirra megin borðsins í slíkum viðtölum og kvíði þessu mjög. Hvað á ég að segja?? ‘Jæja gamli, ertu búinn að fá þér aðeins í glös nýlega?’

Þetta gengur annars ágætlega geri ég ráð fyrir. Maður er á eilífum fundum reyndar sem eru viðbrigði frá fundalausu lífi sláturhússins þar sem maður fór bara í kaffi og á klósettið. Norðmenn gera mjög lítið nema að funda fram og til baka um það fyrst og á flestum vinnustöðum má ekki gera neitt nema það samræmist HMS-staðlinum, helse, miljø, sikkerhet, vinnuverndarkerfi sem hægt er að sitja nógu mörg námskeið í til að það endist heila starfsævi…án þess að mæta í vinnu. HMS er hvað öfgafengnast á olíuborpöllunum er mér tjáð, þar skiptirðu ekki um ljósaperu nema leggja fram mjög ítarlega skriflega skýrslu um verkefnið…fyrir fram.

Athugasemdir

athugasemdir