Byrjandi á ný!

umbudirÉg finn ekki fyrir fótunum á mér neðan við ökkla, mér finnst ég hafa slitið innanlærisvöðva, það blæðir undan einni fingurnögl og mér líður eins og ég sé að sjúga glerbrot ofan í lungun þegar ég anda. Svínaflensa? Nei. Nóró-vírus? Ó, nei. Svarti dauði??? Vonandi ekki. Ég byrjaði hins vegar að æfa taekwondo í kvöld hjá Stavanger NTN Taekwon-do klubb og fékk heldur betur upprifjun á því hvernig er að vera byrjandi í nýrri bardagaíþrótt.

Þetta upplifði ég síðast í september árið 2000 þegar ég hóf karateæfingar hjá Karatefélaginu Þórshamri sem átti eftir að verða mitt annað heimili næstu sjö árin. Þá hafði ég reyndar hætt að reykja þremur mánuðum áður eftir áratug við þá iðju svo fyrstu æfingarnar voru enn viðurstyggilegri en ella, en núna er ég tíu árum eldri svo þetta kemur kannski út á sléttu. Þessi fyrsta æfing var alla vega stórfín, þótt ég sitji hér núna hálförkumla við tölvuna, og frábær tilfinning að vera aftur kominn með hliðarbúgrein út frá lóðalyftingum sem einar og sér enda alltaf í hálfgerðum stirðleika þótt maður geri einhverjar málamyndateygjur. Teygjuæfingarnar eftir þessa fyrstu æfingu í kvöld voru þannig að mér leið á tímabili eins og ég væri að fæða og ég skal játa það hér kinnroðalaust að ég kemst ekki lengur í splitt og spíkat eins og fyrir svartbeltisgráðunina í karate vorið 2007 (sá liðleiki var einmitt mjög svona 2007 eins og nú er haft að orðatiltæki).
tonsb-fostur
En batnandi mönnum er best að lifa og nú er stefnan bara sett á fyrstu gráðun í lok mars. Ætlunin var reyndar alltaf að byrja að æfa í haust sem leið en það reyndist ómögulegt samhliða tólf tíma vinnudegi í sláturhúsinu. Þeir TKD-menn notast við heilan haug af gráðum en þar á bæ er fyrsta svarta beltið tólfta gráðan sem tekin er en að jafnaði sú tíunda í karate. Það er hálfgerð skelfing að vera að byrja aftur á botninum en þannig er lífið eins og nýlegt bankahrun og fleira skemmtilegt hefur kennt okkur. (MYND: Fræg mynd sem náðist af mér á karateæfingabúðum í Tønsberg hér í Noregi sumarið 2004 eftir tvær 90 mínútna æfingar með sensei Kawasoe og sensei Ochi sem báðir þjást af kvalalosta. Þetta var kannski ekki alveg svona hryllilegt í kvöld en vont samt.)
drykkja
Ofan í þessa æfingamaníu alla hef ég svo migið ryki frá því einhvern tímann á nýársdag en þá hófst samkvæmt venju árlegur tveggja mánaða áfengisþurrkur mánuðina janúar og febrúar, sá áttundi í röðinni, ótrúlegt en satt. Þar með var nýliðin helgi brakandi þurr og leið þar með eins og heil vika sem er svo sem ágætt. Þetta hefur reyndar þann ótvíræða kost í för með sér að hægt er að taka hrikalega á lóðunum á sunnudagseftirmiðdögum þegar nánast engir súrefnisþjófar eru á ferðinni í Elixia. Í meðalárferði fer sunnudagurinn yfirleitt allur í að drekka sig niður með kaffi, Bailey’s og hvítvíni eftir dagana tvo á undan svo sunnudagsæfingar eru alltaf tilbreyting…en aldrei beint eðlilegt ástand.

Athugasemdir

athugasemdir