Brynjar Þór Sigmundsson – in memoriam

Binni„Ég er ekkert að rugga helvítis bátnum, hann er löngu sokkinn!“ eru ummæli sem ávallt koma fyrst upp í hugann þegar ég lít yfir þann tíma sem ég þekkti Brynjar Þór Sigmundsson en í gær bárust mér þau sorgartíðindi yfir hafið frá fjölskyldu Brynjars að hann hefði kvatt þennan heim og okkur sem eftir stöndum.

Ívitnuðum ummælum, líkt og býsna mörgum öðrum úr smiðju Brynjars, var kastað fram með glotti við tönn en pilturinn var þeim eiginleika gæddur að brosa með öllu andlitinu og duldist fáum þegar einhver kerskni var í vændum úr þeirri átt. Í þetta sinnið var verið að ræða kjaramál tollvarða en á þeim og mörgu öðru í mannlífinu hafði Binni sterkar skoðanir og bauð iðulega upp á haldbær rök með málflutningi sínum.

Leiðir okkar Binna sköruðust fljótlega upp úr því er ég hóf störf á innheimtusviði tollstjórans í Reykjavík að hausti 2003. Eðlis starfsins vegna lágu ólíkar starfsstöðvar embættisins víða um höfuðborgarsvæðið en þrátt fyrir að nokkrir kílómetrar væru á milli okkar í vinnunni var ekki hjá því komist að fá veður af þessum snaggaralega einstaklingi enda stóð hann yfirleitt í innsta hring félagslífs embættisins og átti meðal annars sæti í árshátíðarnefnd sem óumdeilanlega var æðsta stjórnvald málaflokksins. Með okkur Binna tókust á þessum tíma mikil og góð kynni sem stóðu fram á efsta dag en við héldum sambandi og hittumst reglulega eftir að störfum okkar hjá tollstjóra lauk.

Ekki var þó eins mikið um fundi okkar og við gjarnan hefðum viljað hin síðustu ár enda hafði Brynjar sótt um og fengið stöðu tímabundið við friðargæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins í Kabúl í Afganistan og ég flutt til Noregs. Nokkrir ánægjulegir viðburðir síðustu ára urðu þó tilefni til þeirra forréttinda að fá að sjá stuttlega framan í Binna og er brúðkaup okkar Rósu á Íslandi sumarið 2012 mér þar efst í huga þar sem Binni mætti með splunkunýja myndavél sem hann enn kunni lítið á og smellti fyrir hreina slysni af bestu hópmyndinni af brúðhjónunum og Bubba Morthens. Ekki var verra að geta síðar sagt þá sögu að einn brúðkaupsgesta hefði mætt á staðinn alla leið frá Afganistan.

Við Binni áttum gott símtal föstudagskvöldið 14. nóvember. Hann hafði þá fyrir nokkru ákveðið að hætta að passa upp á afgönsku þjóðina og snúa aftur með báða fætur til Íslands. Hafði hann í því skyni fjárfest í reisulegu einbýlishúsi í Reykjanesbæ og var farinn að leggja drög að nokkrum atvinnuumsóknum, atorkan sú sama og ég þekkti hjá honum öll árin tíu. Við hjónin vorum boðin innilega velkomin í heimsókn við fyrsta tækifæri sem við félagar næðum að vera loksins samtímis á Íslandi.

Ekki verður af þeirri heimsókn og ekki verða fleiri símtölin þar sem Binni lét vaða á súðum um menn og málefni á líðandi stundu af smitandi gamansemi sinni. Þar er skarð fyrir skildi.

Ég kveð kraftmikinn samstarfsmann, góðan vin og félaga. Fjölskyldu Brynjars og stórum vinahópi bið ég allrar blessunar á ögurstundu.

Athugasemdir

athugasemdir