Britney Spears naked

gomul konaÞessi fyrirsögn er tilraun sem ég geri að gamni mínu til að sjá hve mörgum vefrápurum gúgglun þessa orðasambands vísar inn á síðuna. Ég hef sagt frá því áður að á mánudagskvöldum fæ ég í tölvupósti skjal með ítarlegri samantekt á heimsóknafjölda, meðaltíma lesenda á síðunni, upprunalandi heimsókna og ég veit ekki hvað. Einnig upplýsingum um hvaða leitarorð stuðst hefur verið við þegar leitarvélar beina til mín lesendum. Leitarorðin sem nú eru efst á baugi eru geitungabú, gyllinæð og brjósklos, allt hlutir sem ég hef skrifað um af eigin reynslu. Gissur Sigurðsson býsnaðist gjarnan yfir því á morgunvöktum okkar hér áður að Britney Spears væri mest gúgglaða manneskja heims. Verður nú látið reyna á þetta. (MYND: Britney Spears eftir 100 ár. Nei, reyndar er þetta bara mynd sem ég birti hérna af því að mér datt ekki önnur í hug. Ég var að renna yfir myndirnar okkar Rósu frá Búlgaríu sumarið 2007. Á veitingastað þar rákumst við á stærstu gömlu konu heims að okkar mati. Manneskjan er risavaxin. Og það sem meira var, hún reyndist vera norsk!)

Ég sé að mikið er rætt um það á Íslandi að kreppan sé búin, ekki hafa minni spámenn en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (djöfull er leiðinlegt að skrifa þessa romsu!) og Vilhjálmur Egilsson haldið þessu fram. Öll rök hníga þó að öðru, fyrir utan kannski þau að kaupmáttur hefur þokast eitthvað upp á við. Er það ekki bara af því að enginn er að kaupa neitt? Að minnsta kosti gefur þessi frétt ekki tilefni til að telja að smjör drjúpi af hverju strái í landi elds og ísa.

Eins tekur Egill Helgason upp pistil af bloggsíðu Andra Geirs Arinbjarnarsonar og þar gefur að líta meitlaða og úthugsaða klausu. Ég hef bara ekki séð þetta orðað eins vel áður:

Við erum ein skuldugasta þjóð í Evrópu með gjaldmiðil og lánstraust sem er ekki viðurkennt erlendis.  Við erum í gjörgæslu AGS, fjármögnuð af hinum Norðurlöndunum.  Okkar efnahagslega sjálfstæði er í höndum útlendinga. Við eigum nóg af endurnýjanlegri orku sem aðrir öfunda okkur af en til að nýta hana þurfum við fjármagn og stöðu[g]leika.

Ekki það að tilgangur skrifa minna sé að sá fræjum bölsýni og svartagalls í sálarkima lesenda en ég segi 1-0 fyrir Andra Geir gegn AGS og Villa. Sennilega er Aftenposten sammála mér eins og merkja má af síðasta pistli mínum sem Vísismenn voru svo huggulegir að vísa til í frétt í fyrradag og auk þess hlekkja yfir á síðuna mína líka sem er heiður.

Hitabylgjan sem ég beið eftir, skjálfandi á beinunum af ótta, skall á suðvesturströnd Noregs eins og seigfljótandi hraunleðja í loftkenndum fasa í morgun. Eðlileg afleiðing þessa er að ég er búinn að vera að skipta um föt í allan dag og hef reynt að hreyfa mig eins hægt og kostur er á til að draga úr svitamyndun. Ég var í tveimur orðum sagt hreinn viðbjóður eftir 11 kílómetra hjólreiðar í vinnuna í morgun. Fataskiptaaðstaða er ekki forgangsverkefni heilbrigðisyfirvalda hér og ræstingafólkið skiptir flest um föt í sinni ræstingakompu á hverri deild. Hefðu dyrnar á minni kompu verið opnaðar á röngu augnabliki milli sjö og átta í morgun hefði viðkomandi staðið frammi fyrir mér kviknöktum að hengja nærbuxurnar mínar upp til þerris á skáphurð. Enn og aftur þakka ég fyrir hið næfurþunna hvíta lín sem vinnufatnaðurinn er ofinn úr og að fá hrein föt daglega í vinnunni er lúxus sem ég man bara ekki eftir að hafa nokkurn tímann upplifað.

Ég get ekki sett punktinn aftan við þennan pistil og lagst kófsveittur í rúmið án þess að tilfæra óborganlega klausu úr tölvupósti sem barst í dag frá föður mínum. Beðist er velvirðingar séu persónuverndarsjónarmið látin lönd og leið.

Ég ýtti á vitlausan takka þegar ég sendi þér SMS frá Ísafirði. Fékk svar frá Siv Friðleifsdóttur, þar sem hún þakkaði fyrir góðar kveðjur, en gerði ráð fyrir að annar hefði átt að fá þær.

Athugasemdir

athugasemdir