Brennivín, naut og svarthol

svartholViðburðarík helgi er að baki. Á föstudag hittumst við gömlu félagarnir úr dyravörslunni á Nelly’s og Prikinu 2001 og 2002 og hágrétum yfir ljúfsárum æskuminningum. Það eru þeir heiðursmenn Ingi Freyr Atlason og Hallmar Freyr Þorvaldsson sem hafa, auk mín, gert heiðarlega tilraun til að halda hópinn og hittast einu sinni eða tvisvar á ári og fara yfir stöðuna. Þetta er alltaf jafnskemmtilegt þótt við séum alltaf að rifja upp nákvæmlega sömu hlutina. Alltaf virðist líka jafnstutt síðan 2001. Kannski er bara svona stutt síðan.

Á laugardag tók við bústaður hjá pabba og frú í Svínadalnum inn af Hvalfirði. Glampandi sól, gin og tónik auk hrikalegrar nautasteikur af grillinu með bernais-sósu og tilheyrandi. Þetta er ein hinna fínstilltari nautna lífsins.

Nú í dag tók svo við fínpússun MA-ritgerðarinnar minnar sem fer í prentun í Háskólafjölritun klukkan 09:00 í fyrramálið. Helgi Gunnlaugsson lagði blessun sína yfir uppkastið sem ég skilaði honum á þriðjudaginn en bað um örlitla fínstillingu sem var ekki mikið meira en fjögurra tíma dútl. Ótrúlegt að þessu sé loks að ljúka. Eftir mánuð verða einmitt 10 ár síðan ég eyddi heilum degi niðri í Háskólafjölritun yfir BA-ritgerðinni minni við að laga til neðanmálsgreinar og almennt öll þau leiðindi sem Word gat boðið upp á í þá daga sem var ótrúlega mikið. Þegar ég steig út í sólina með tíu eintök af kvikindinu undir hendinni sór ég þess dýran eið að stíga aldrei fæti inn í Háskóla Íslands aftur. Ég sveik það tvisvar og er þar enn tíu árum seinna.

Nú held ég hins vegar að ég sé búinn að sjá ljósið endanlega…Háskóli Íslands er svarthol. Hann sogar til sín tíma, rúm og mig. Ætli þeir í raunvísindadeildinni viti af þessu?

Athugasemdir

athugasemdir