Bótox-konan í Kópavogi líflegasta fréttaefnið

gunnar birgissonAlls konar leiðinlegt og hálfömurlegt efni er að finna og sjá í fréttamiðlum heimsins þessa dagana en engar fréttir finnst mér þó leiðinlegri en þær sem streyma frá Íslandi. Upplausn hjá vinstri-grænum, fiskveiðistjórnunarkerfi, óþrjótandi umræða um álver hingað og þangað og enn þá fleiri leiðinleg og óspennandi mál úr löngum endaþarmi þessa blessaða bankahruns. Ofan í þetta er svo verið að ræða við sama fámenna hóp stjórnmálamanna og álitsgjafa frétt eftir frétt. Bótox-konan í Kópavogi er eiginlega líflegasta fréttaefni dagsins. Gott hjá fólki að fitja upp á nýjum atvinnurekstri í kreppunni, þetta er nýsköpun. Ætli Gunnar I. Birgisson fái sér ekki bótox-dreitil í undirhökuna? Það er gott að búa í Kópavogi!

Harðar taekwondo-æfingar hafa nú verið iðkaðar undanfarnar vikur enda styttist í fyrstu gráðun. Hún fer fram sunnudaginn 3. apríl, gat verið að næðist að eyðileggja fyrir manni drykkjuhelgi. Það er óneitanlega fiðringur í byrjendahópnum en við krækjum okkur í gráðuna 9. gup ef við stöndum þetta af okkur. Þótt ég finni fyrir nettum glímuskjálfta er hann ekki mikill miðað við ástandið fyrir 9. kyu-gráðunina mína í karate hjá Þórshamri sem fram fór 2. desember 2000. Þetta venst einhvern veginn. Nú veit maður líka að það fellur nánast enginn á fyrstu gráðun hafi fólk mætt á æfingar og sýnt þokkalegan lit. Ég var með virkilegan prófskrekk fyrir fyrstu karategráðunina mína. Ég man að ég æfði sporin í þeirri kata sem var til prófs á ganginum í auglýsingadeildinni á Morgunblaðinu í Kringlunni þar sem ég vann sem prófarkalesari á þessum dásamlega tíma. Þetta var samt bara gert ef ég var á kvöldvakt og ekki múgur og margmenni í húsinu.

Mörg tæknin er keimlík í karate og taekwondo þótt áherslurnar séu býsna ólíkar milli þessara greina. Í TKD er til dæmis mun meira lagt upp úr því að nemendur læri og geti staðið skil á fjöldamörgum kóreskum orðum. Kunnátta iðkenda í þessum fræðum er prófuð í gráðunum. Þá er talið sjálfsagt að fólk sé þokkalega að sér í sögu Kóreu og geti greint á milli ýmissa tímabila auk persóna úr sögunni. Ég er á því að TKD sé miðstýrðasta íþrótt í heimi og töluvert lituð af því að hafa mótast í ríki þar sem stjórnarhættir kommúnisma hafa verið ríkjandi. Eins dregur hún mikið vatn úr brunni búddisma og taóisma en hvað sem því líður er hún að minnsta kosti mjög ákjósanleg líkamsrækt.

Hér í Stavanger er orðið nokkuð vorlegt um að litast og nú erum við farin að sitja úti í garði sjúkrahússins á ný í matartímanum, það gerðist í fyrsta sinn í dag í glampandi sólskini. Um næstu helgi tekur sumartíminn gildi og er klukkunni þá flýtt um eina klukkustund aðfaranótt sunnudags. Klukkan verður sem sagt þrjú þegar hún verður tvö um nóttina og helgin þar með klukkutíma styttri sem er svo sem bölvað. Þetta gerir það einnig að verkum að sólin verður ekki komin eins hátt á loft þegar maður vaknar til vinnu á mánudaginn en hennar nýtur hins vegar lengur við fram eftir degi og verða þau áhrif mjög áberandi yfir hásumarið. Ég hef skrifað það hér áður og geri enn að Íslendingar ættu að taka þetta fyrirkomulag upp aftur, það lengir daginn áberandi á sumrin og við Gunnar getum sleppt bótoxinu.

Athugasemdir

athugasemdir