Bókin um NOKAS

dodsranetiiDødsranet – David Toska og veien til NOKAS heitir bók eftir norsku blaðamennina Rolf J. Widerøe og Hans Petter Aass. Þarna er að finna einstaka umfjöllun um ránið í peningaflutningaþjónustunni NOKAS (Norsk Kontantservice) 5. apríl 2004. Ellefu vopnaðir menn undir stjórn Björgvinjarbúans Davids Toska brutu sér leið inn í peningageymslu NOKAS hér í miðbæ Stavanger og höfðu á brott með sér rúmlega 57 milljónir norskra króna sem nú á dögum teldist yfir milljarður íslenskra króna.

Að meðtöldum flóttaökumönnum og öðrum hjálparkokkum hlutu þrettán manns dóm fyrir ránið, Kjell Alrich Schumann þann þyngsta, átján ár, en hann skaut lögreglumanninn Arne Sigve Klungland til bana meðan á ráninu stóð. Sleggja og 113 skot úr hálfsjálfvirkum árásarrifflum komu ræningjunum að lokum gegnum þykkt öryggisgler sem kostaði þá mun meiri tíma en áætlanir gerðu ráð fyrir. Í 20 mínútur var miðbær Stavanger sem vígvöllur.

Widerøe og Aass skrifa bókina meistaralega. Þeir rekja meðal annars ævi og uppvaxtarár höfuðpaursins Davids Toska sem var undrabarn í skák og er sonur mikils metins norsks læknis. Toska hafði einstakan hæfileika til að skipuleggja flóknar aðgerðir og var þar að auki slíkur fullkomnunarsinni að hann hætti allri skákþátttöku ellefu ára gamall þegar hann áttaði sig á því að hann yrði aldrei Noregsmeistari. Þá hafði hann þó unnið til nokkurra titla á skáksviðinu.

David Toska skipulagði NOKAS-ránið á einu ári og raðaði niður næstum 20 þátttakendum í aðgerðinni af mikilli nákvæmni. Aldrei hefur svo hárri peningaupphæð verið rænt í Noregi. Kvikmynd um atburðinn er nýkomin í bíó hér og er án efa allrar athygli verð en óhætt er að mæla með bókinni sem er hreint meistaraverk og hver einasta heimild tilvísuð, allt niður í einstakar yfirheyrslur lögreglu, ummæli vina og aðstandenda og svo framvegis. Mjög fróðleg lesning. Fjórar stjörnur af fimm.

Athugasemdir

athugasemdir