Í dag, 1. febrúar 2011, fagnar vefsetrið atlisteinn.is tveggja ára afmæli sínu en það hóf göngu sína formlega 1. febrúar 2009 eftir töluverðar fæðingarhríðir og grafíska yfirlegu í höfuðstöðvum Miðnets sem annast hýsingu og tæknileg atriði önnur en ritun efnis á síðuna. Á þessum tveimur árum hafa eitthvað um 400 pistlar litið hér dagsins ljós sem er langt í frá samkeppnisfær frammistaða en á móti kemur að þeir eru að jafnaði nokkru lengri en lögpistill á hinni dæmigerðu tjáningarsíðu eða ‘bloggi’ eins og mér er nú illa við það orðskrípi. Þessi verður hins vegar undantekning frá þeirri reglu enda skrifarinn nær dauða en lífi eftir erfiðan dag sem hófst með heimsmeti í veikindafjarvistum og lauk með hreinum og klárum misþyrmingum taekwondo-kennara sem virðist vera sjálfur djöfullinn í líki unglingsstúlku. Á milli var stíf bekkpressuæfing. Þriðjudagur til þrautar svo um munar. En gefandi þó.