Blöndæla

peblHæstvirtur sjöundi þingmaður Reykjavíkur norður, Pétur H. Blöndal, skefur ekki af skoðunum sínum í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 7. nóvember. Orðrétt lét Pétur þessi ummæli falla:



…og það er meiningin að halda áfram að borga út séreignasparnað. Mér finnst hvort tveggja vera slæmt. Mér finnst ekki gott að hvetja fólk til að hætta að spara og…



(MYND: Pétur, það er ekki nóg að vera doktor í stærðfræði.)

Áhyggjur Péturs eru miklar og væntanlega þungar en rökin veigalítil. Hann óttast að íslensk alþýða fái áfram að taka út séreignasparnað sinn og setur þá framkvæmd undir sama hatt og að hvetja fólk til að hætta að spara. Hvernig telur Pétur að þetta komi heim og saman? Nú er ég í þeirri stöðu að taka á sama tíma út séreignasparnað minn og greiða áfram iðgjald til hans af launum fyrir hlutastarf. Er ég þá hættur að spara? Svo tel ég engan veginn vera.

Þá telur Pétur sig þess umkominn að taka einhliða ákvörðun um hvað sauðsvörtum almúganum muni vera fyrir bestu – sem sagt að láta séreignasparnað sinn hvíla í friði svo ríkið fái nú örugglega að skattleggja hann með vöxtum og verðbótum þegar rétthafi kemst á þann aldur að fá lögum samkvæmt að taka sparnaðinn út verði viðkomandi ekki löngu dauður úr svínaflensu og landið sokkið í saltan sæ. Hæstvirtur sjöundi þingmaður er í harðri samkeppni við Spaugstofuna með málflutningi sínum og full ástæða til að vera í sjöunda himni yfir því.

Athugasemdir

athugasemdir