Blóði mun rigna á berar þjóðir

arnipallÞessi ágæta ljóðlína úr draumvísu í Sturlunga sögu á nokkuð vel við íslenskt þjóðfélag í janúar 2010. Ég hlustaði á Árna Pál félagsmálaráðherra í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hlustendum var gefinn kostur á að hringja og spyrja ráðherra í beinni. Lítið kom á óvart að helmingur fyrirspyrjenda (tveir af fjórum sem náðu inn) spurði einfaldlega hvenær ríkisstjórnin ætlaði að fara að gera eitthvað í stað þess að tala bara um hlutina. Árni svaraði strax að ríkisstjórnin væri nú búin að gera alveg fullt síðan hún komst til valda en gekk þó eitthvað brösulega að nefna dæmi um þær aðgerðir, fyrir utan greiðsluaðlögunarúrræði sem lækka greiðslubyrði yfirveðsettra heimila um heil 17 prósent og breyta nákvæmlega engu fyrir heimili þar sem báðar fyrirvinnur eru hugsanlega án atvinnu og afborgarnir af lánum mörg hundruð þúsund á mánuði. Játaði hann þó að styrkja þyrfti stöðu skuldara. Það er mikil og þörf yfirlýsing en því miður bara yfirlýsing eins og allt sem frá hans flokki kemur. (MYND: Góðærisglottið leikur enn um varir ráðherrans.)

Þá lá ráðherra ekki á þeirri skoðun sinni að hann teldi útlitið bara nokkuð bjart og allt í lukkunnar velstandi á landinu. Nokkrum klukkustundum síðar var greint frá því í hádegisfréttum Bylgjunnar að 40 manns bættust á atvinnuleysisskrá dag hvern og búast mætti við að atvinnuleysi færi yfir 10 prósent í febrúar sem yrði þá það mesta síðan mælingar hófust. Félagsmálaráðuneytið hlýtur að vera hæsti fílabeinsturn Vesturlanda og þótt víðar væri leitað. En lái ráðherranum hver sem vill. Ef ég sæti inni á fínni skrifstofu á ráðherralaunum með eðalvagn og einkabílstjóra fyrir utan þætti mér útlitið ábyggilega bara nokkuð bjart.




Minna keypt af áfengi, er fyrirsögn fréttar mbl.is í dag. Kemur þar fram að samdráttur í sölu áfengis milli desembermánaða 2008 og 2009 eftir leiðréttingu vegna árstíðabundinna þátta nemi 6,3 prósentum. Styttist nú í að orð veitingamanna og annarra fróðra manna um áfengiskaup landsmanna rætist en þessir aðilar höfðu uppi yfirlýsingar um það í fjölmiðlum, þegar fyrsta stóra verðhækkun áfengis tók gildi 1. júní 2009, að slíkur ráðahagur stjórnvalda skilaði sér seint og illa í ríkiskassann þar sem fólk færi að brugga og smygla mun meira er það stæði frammi fyrir svo gerræðislegum og illa rökstuddum hækkunum á áfengisverði.

Athugasemdir

athugasemdir