Blod på tanden…bókstaflega

kbenVið ákváðum að fórna nýafstaðinni helgi á altari menningarinnar eftir allt það meinlætalíf sem lesa má um í pistlum hér á undan og brugðum okkur til Kaupmannahafnar, þessarar vöggu félags- og menningarstarfs íslenskra skálda, náms- og drykkjumanna um aldaraðir. (MYND: Á lestarstöðinni í Ørestad, Aldís, Kári, Brynjar, ég og Rósa. Allt þetta áfengi á almannafæri hefði skilað okkur í fangageymslur í Noregi á nanósekúndu.)

Tilgangurinn var að endurgjalda helförina svokölluðu en undir því nafni þekkja íbúar Stavanger og Sandnes annálaða heimsókn Brynjars Más Ottóssonar tannsmiðs dagana 12. – 15. október síðastliðna. Komust Norðmenn þá að því í eitt skipti fyrir öll hvað felst í hugtakinu full keramik. Heimsóknin féll í raun saman við útskriftarveislu Brynjars sem hans hugumstóra sambýliskona, Aldís Brynjólfsdóttir, verðandi tannsmiður, skipulagði fullkomlega á bak við hann. Okkur Rósu var boðið í veisluna um leynisíðu á Facebook snemma í haust og mundum svo ekkert eftir því þegar við ákváðum, að Brynjari viðstöddum, að kíkja bara á þau eftir hálfan mánuð. Við vorum samt bara brot af rammíslensku (og færeysku) gestavali og tókst að koma hinum útskrifaða bærilega á óvart þar sem hann átti ekki von á að hitta fyrir fleiri en tvo gesti á heimili sínu á föstudaginn var.

Menn fengu sér auðvitað smávægilega í glös en fyrst og fremst var þó um fágaða samkomu að ræða þar sem rætt var um smíði tanna og stöðu Danmerkur innan Evrópusambandsins. Mjög pent allt saman. Gott veður setti svip sinn á ferðalagið, allt frá því að við stigum út úr Airbus 319-flugfari SAS-flugfélagsins á föstudaginn og þar til við stigum upp í það aftur á sunnudaginn. (MYND: Rósa ásamt Johann Joensen, einu öflugasta afkvæmi íslensks og færeysks foreldris fyrr og síðar.)kbenii

“Heilinn á Íslendíngum hefur alltaf verið í Kaupinhafn,” skrifaði Halldór Kiljan Laxness einhvers staðar í Guðsgjafaþulu ef ég man rétt en minn heili hefur svo sem ekki verið þar oft. Síðast 2006 og þar á undan sennilega 1998 með stuttu stoppi um páskana 2003. Þess vegna rata ég nú lítið þarna og man yfirleitt rétt svo eftir Ráðhústorgi, Striki og Sívala turni. Þess vegna þótti mér einkar ánægjulegt að sjá hve nýtískuleg og nútímavædd borgin er orðin, þarna hafa bleikir akrar og slegin tún mátt víkja fyrir módernískum blokkarhverfum svo sem í Ørestad, þar sem gestgjafar okkar búa í bjartri íbúð aðeins steinsnar frá Kastrup-flugvelli.

Íslendingabarinn Blasen í miðbænum var áfangastaður í alfaraleið bæði kvöldin okkar en Íslendingar eiga hann, vinna á honum og drekka þar. Sennilega hef ég aldrei hitt jafnmarga Íslendinga á einum stað erlendis eins og á þessum ágæta bar auk þess sem hann skartar barþjóninum Teódóri frá Eyjafjarðarsveit sem er lifandi eftirmynd Gary Oldman og bauð okkur heim til sín í mjög innihaldsríkt samkvæmi á laugardagskvöldið. (MYND: Barþjónn á Blasen. Þetta er reyndar ekki Teódór enda líkist þessi náungi frekar Weird Al Yankovic en Gary Oldman. Þarna eru reykingar leyfðar vegna þess að staðurinn er innan við 60 fermetrar að flatarmáli.)kbeniii

Ég er greinilega búinn að búa of lengi í Noregi enda hváði ég þegar ég pantaði gin og tónik á dönskum bar og var inntur eftir því hvort ég sæktist þá eftir einföldum eða tvöföldum. Tvöfaldur af sterku áfengi á bar er auðvitað lögbrot hér og ég var búinn að gleyma þessum möguleika. Eins var það mikil upplifun að geta labbað inn í 7-Eleven niðri í miðbæ um miðja nótt og keypt heila flösku af Smirnoff-vodka á 169 danskar krónur (168,85 norskar). Sama flaska kostar tæpan 300 kall út úr ríkinu hérna. Heppnu skepnur!

Ég þakka tannsmíðagenginu og öllum sem að verkefninu komu fyrir ógleymanlega helgi. Ég hefði klárlega ekki gott af því að búa í Kaupmannahöfn en það er huggulegt að vita af henni í klukkutíma fluglengd frá Stavanger. Allt of huggulegt.

Athugasemdir

athugasemdir