Ljóst er eftir nokkrar flettingar gegnum Bókatíðindi að það mun kosta töluverða útsjónarsemi að sameina lestur og drykkju um jólin, því mikið verður af hvoru tveggja. Þetta virðast ætla að verða ein öflugustu bókajól frá upphafi jóla…og bóka. Ég hef áður talað um bækur Óskars Hrafns Þorvaldssonar og Jóhannesar Kr. Kristjánssonar sem ég ætla mér að lesa spjalda á milli en fjöldamargt annað spennandi er í boði. Þá er fjöldi íslenskra glæpasagna án efa nýtt met. Ég rek augun sérstaklega í bókina Þegar kóngur kom eftir Helga Ingólfsson. Helgi er höfundur hinnar bráðhnyttnu Andsælis á auðnuhjólinu sem kvikmyndin Jóhannes frá því í fyrra er byggð á. Þegar kóngur kom er ein örfárra íslenskra glæpasagna sem gerast fyrr á öldum (en eru skrifaðar nú á dögum). (MYND: DV.is.)
Arnald les ég alltaf af einhvers konar skyldurækni og finnst hann yfirleitt ágætur þótt maður sé farinn að reka sig á endurtekningar. Hann er samt eitthvað svo rammíslenskur – Snorri glæpasögunnar. Það sem hins vegar hryggir mig mest er að sjá ekki nýja bók eftir Stefán Mána Sigþórsson sem iðinn hefur verið við kolann undanfarin ár. Ég tók mig til árin 2004 og ’05 og las allar bækurnar hans sem þá voru komnar út. Þótt athygli flestra hvíli á nýlegum bókum hans verð ég að benda á bækur hans Hótel Kalifornía (2001) og Ísrael: saga af manni (2002) sem báðar eru listaverk að mínu viti.
Ég sendi Íslendingum hamingjuóskir á fullveldisdaginn.