Blákaldur raunveruleikinn skellur á

hSennilega hefur ekkert takmarkaðra skemmtanagildi í lífinu en að koma úr fjögurra vikna sumarfríi og stimpla sig inn í kaldan veruleika með því að hefja hvort tveggja störf og skólavist á sama tíma. Þetta tvennt átti sér þó stað um síðustu mánaðamót í lífi mínu og er ég langt í frá byrjaður að jafna mig. (MYND:An institutional learning facility, eins og það var orðað í ágætu tónverki Suicidal Tendencies, Institutionalized.)

Fjögur námskeið bíða mín á önninni fram undan og MA-ritgerð eftir áramót. Efni og leiðbeinandi eru þegar til staðar en það versta er auðvitað eftir…öll vinnan við þennan fjanda. Eftir því sem árunum fjölgar dregur úr þolinmæði minni gagnvart því að verma bekki menntastofnana og þótt fyrirliggjandi námsefni sé forvitnilegt og kennarar bjóði af sér góðan þokka, enda allt þaulreyndir fræðimenn sem hafa marga félagsvísindafjöruna sopið, verð ég að segja að ég einhvern veginn nenni þessu ekki.

Maður er orðinn það hagvanur hinu þægilega lífi að verabara að vinnaað allt aukaáreiti á tiltölulega lítið upp á pallborðið. Þó steypti ég mér í þetta fen sjálfur og verð að taka því. Kvöldin fara núna í lestur þykkra fræðirita á sviði boðskiptafræði (eða fjölmiðlafræði) þar sem nánast fer meira púður í að vísa í rannsóknir, textanum til staðfestingar, en það sem fram kemur í textanum sjálfum (Petersson og Petterson, 1993). Petersson og Petterson! Hvernig dettur þessum gaurum í hug að fara út í rannsóknir saman? Þekkir einhver nöfnin í sundur?

Alla vega, mín bíða vissar hörmungar næstu 12 vikur, ritgerðir, framsögur, andmæli, próf og heimapróf. Einnig fjöldi gestafyrirlesara og einn laugardagur þar sem annar kennari námskeiðsins kennir frá níu til fimm í striklotu þar sem hann hefur fengið stöðu við Háskólann á Akureyri og hyggst skjótast suður og kenna allar sínar níu kennslustundir á einu bretti. Ég skil Bubba núna þar sem hann söngAldrei fór ég suður.En með vorinu lýkur þessu öllu saman og eins og alltaf að loknum hroðalegum skólatörnum lítur maður til baka og hugsar með sér að þetta hafi í raun ekki verið svo slæmt heldur uppspretta fagurra minninga um akademískt puð og vont og rándýrt kaffi Félagsstofnunar stúdenta. En þangað til er langur tími og að því er virðist óendanlegur fjöldi fyrirlestra á köldum vetrarmorgnum í Lögbergi og Odda eftir næstum kílómetralanga göngu frá næstu bílastæðum enda ekki nema 15.000 nemendur við Háskóla Íslands nú á krepputímum.

Þjáningin er fæðingarhríð skilningsins, ritaði Khalíl Gibran í Spámanninn. Vonandi hefur hann nokkuð til síns máls.

Athugasemdir

athugasemdir