Blaðamaður óskast á gröfu

grafaAftenposten auglýsti núna um daginn lausa stöðu gravejournalist á ritstjórn blaðsins. Ég er orðinn ágætur í norsku eftir hálft ár í landinu en þurfti engu að síður að hugsa málið dálitla stund áður en það small inn hjá mér að þarna væri óskað eftir rannsóknarblaðamanni. Annað slagið hnýtur maður um bráðsmellin hugtök í þessu tungumáli en í heildina litið er norskan þó óskaplega fátækt tungumál og einfalt. Mjög lítið er til dæmis um að mörg orð séu finnanleg yfir sama hugtakið líkt og í íslenskunni, raunar er meira um að sama orðið sé notað yfir fleiri en einn hlut eða fyrirbæri. Þá er lítið um að smíðuð séu nýyrði á norsku yfir alls konar varning sem heilu íðorðanefndirnar liggja yfir á Íslandi, gámur heitir hér kontainer, greit er hiklaust notað yfir eitthvað sem jákvætt þykir og ambulans er sjúkrabíll. Þó hafa Norðmenn búið sér til eigið orð yfir tölvu og kalla hana datamaskin, það hafa langt í frá margar þjóðir gert.

Þetta er þó kannski engin furða, Noregur var undir makt Danakonungs í 434 ár og meira að segja Knut Hamsun, höfuðskáld þjóðarinnar, ritaði öll sín verk á dönsku. Fyrir utan gravejournalist eru eftirfarandi norsk hugtök í uppáhaldi hjá mér:

Havarikommisjonen – almannavarnir
Vegvesenet – vegagerðin
Farts dempere – hraðahindrun
Jordmor – ljósmóðir
Bobbledress – kuldagalli
Do (frb. ) – klósett (og dobørste – klósettbursti)
Mammapermisjon – fæðingarorlof móður
Tillitsvalgt – trúnaðarmaður
Bikkje – hundur (líka hund)
Datatilsynet – persónuvernd

Krakkaóbermið frá Verdens Gang kom aftur í morgun þrátt fyrir mjög skýr bréfleg skilaboð á útidyrahurðinni síðasta sunnudag. Ég ætlaði að hafa miðann á hurðinni aftur í morgun en gleymdi að setja hann upp vegna ölvunar í gær. Ég hafði mig með herkjum og soghljóðum í það að fara í baðsloppinn hennar Rósu og fara til dyra, trylltur af svefnleysi, bræði og ölvun og örugglega eins og skrattinn sjálfur í útliti, þar sem ég las útburðinum pistilinn. Unnskyld var eina orðið sem hann kom upp. Komi hann enn á ný mun ég fá prest til að halda hér særingu, ég meina það.

Ég sé í fréttum að kosningaþátttaka í stjórnlagaþingkosningunum er sú minnsta á Íslandi í áratugi, 36 prósent. Ég verð að játa að mig undrar ekki. Það er kunnara en frá þurfi að segja að stór hluti Íslendinga hefur hreinlega gefist upp á því að binda einhverjar vonir við að raunhæfar lausnir á ríkjandi ástandi komi fram. Stjórnarskrárbreyting, eins þung og hæg og hún verður í framkvæmd, kemur varla til með að breyta miklu í málefnum dæmigerðrar íslenskrar vísitölufjölskyldu sem stritar myrkra á milli og þarf um hver mánaðamót að velja og hafna í reikningasúpunni. Ég efast um að ég hefði drattast á kjörstað til að kjósa hóp fólks sem kemur til með að ákveða hvað næsta stjórnarskrá muni segja um framsal auðlinda, setu ráðherra á þingi og þátttöku landsins í báknum á borð við ESB. Mér er hreinlega slétt sama, ekkert af þessu kemur til með að breyta mínu lífi nokkurn skapaðan hlut og það er alveg klárt að hið sama gildir um fjölda manns á Íslandi. Er ekki svo?

Athugasemdir

athugasemdir