‘3. biskup, taflmaður sem gengur eftir skálínum,’ segir veforðabókin snara.is meðal annars þegar leitað er eftir orðinu biskup. Það er engum ofsögum sagt að biskupar Íslands og fleiri landa gangi aðeins á ská. Ekki þarf að fjölyrða um fyrrum biskup Íslands, nóg hefur verið um það rætt, en nú slær Verdens Gang því upp á forsíðu að norski biskupinn Ole Christian Kvarme hafi greitt konu á áttræðisaldri 10.000 krónur (198.890 íslenskar á gengi dagsins í dag) fyrir að láta hjá líða að kæra sóknarprest sinn í Ósló fyrir káf og klámfengna hegðun en nú er orðið um lögreglumál að ræða eftir að konan lagði fram bréf frá biskupi sem fylgdi greiðslunni og VG birtir hluta af.
Frásagnir af meintu óeðli þeirra kirkjunnar manna, lúterskrar sem kaþólskrar (að ógleymdum Krossinum sem virðist vera nýjasti klámklúbburinn), eru orðnar æði fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum ef litið er til síðustu ára og virðist málaflokkurinn ekki þekkja nein landamæri, hvað þá sóknarmörk. Og ekki er það kirkjan ein sem ungar út öfuguggum hér í Noregi, okkar heimafylki, Rogaland, trónir hvorki meira né minna en á toppi listans yfir flest kynferðisbrot gegn börnum í öllu landinu. Um leið er kirkjusókn hvergi meiri en hér og í nágrannafylkjunum Vest-Agder og Øst-Agder, hinu svonefna biblíubelti. Er tenging þarna á milli?
Taekwondo-æfing númer tvö var í kvöld og nú er ég ekki eins lurkum laminn og í gær svo þetta venst fljótt. Nú gengur hins vegar ekki að fara að léttast niður í einhverja fermingarstelpuþyngd þótt maður sé farinn að sprikla tvisvar í viku svo ég heimsótti tröllið hann Andre í Nordic Power, sem svo heppilega vill til að er við hliðina á Elixia, og skellti mér á 4,5 kílóa dunk af Pure Brutal Gainer sem þeir framleiða sjálfir og 120 hylki af Dominator-kreatíni frá Olimp sem er suddaleg framleiðsla, sjö mismunandi gerðir af kreatíni í einu baneitruðu hylki. Ég brjálast ef ég verð grammi léttari en 105 kíló í vor!!! (Best að nefna enga dagsetningu, he he.) Ég er búinn með fyrstu fjögur hylkin af kreatíninu og það hefur þegar staðist niðurgangsprófið sem er fastur byrjunarliður þegar ég prófa nýtt kreatín. Nánari umfjöllunar er eins og venjulega að vænta þegar sjödagaáhrifin eru komin fram en það er eftir viku eins og margan grunar væntanlega.
Ég er ekki frá því að það sé vor í lofti hérna í Stavanger. Reyndar hefur verið rigning og slydda á víxl í allan dag í bland við napra golu en sólargangur lengist um tvær mínútur og fjörutíu sekúndur hvert dægur og ekki örgrannt um að andrúmsloftið sé einhvern veginn öðruvísi en það var fyrir áramót. Hérna er yfirleitt komin sól og blíða upp úr miðjum mars svo væntanlega er farið að hilla undir fyrsta sólbaðið á svölunum með ískalt hvítvín á kantinum en ekkert dagblað. Við sögðum nefnilega upp áskriftinni að Stavanger Aftenblad í fyrradag, einfaldlega vegna þess að blaðið er iðulega á þykkt við Flateyjarbók með öllum sínum aukablöðum og bæklingum og safnast upp í gríðarmikla hauga hérna niðri í kjallara sem við þurfum svo að skammta í grænu pappírs- og papparuslatunnuna vegna þess að mjólkurfernur og áfengisbeljur þurfa að hafa forgang í hana og þessi sorpmafía tæmir grænu tunnuna bara einu sinni í mánuði sem er hrein klikkun.
Hér er sko engin fimmtán metra regla eins og á Íslandi, við þurfum að drösla þeirri tunnu sem á að tæma hverju sinni út á götu á sunnudagskvöldum því þessir gaurar labba ekki einn metra eftir tunnunni. Einu sinni gleymdum við að fara með matarafgangatunnuna sem er tæmd hálfsmánaðarlega. Hún var farin að labba um sjálf viku seinna. (MYND: Sorptunnur í Stavanger. Þetta eru ekki okkar tunnur heldur tunnur nágranna okkar frá því við bjuggum uppi í Forus fyrri hluta sumars. Þær lágu bara eitthvað svo vel við mynd en okkar eru eins; almennt rusl, pappír og pappi og loks rotnandi matur.)