Bin Laden-aðgerðin í nýju ljósi

bin-laden-compoundVefútgáfa The New Yorker birtir stórforvitnilega grein eftir blaðamanninn Nicholas Schmidle sem fer rækilega ofan í saumana á Operation Neptune’s Spear, aðgerð CIA og SEAL-sérsveitar bandaríska sjóhersins sem leiddi til dauða Osama bin Laden eftir aðeins níu ára og átta mánaða þrotlausa leit að manninum. Ég splæsti einum og hálfum tíma í lesturinn og var það hverrar einustu mínútu virði. Mbl.is var með tengingu á þessa grein í gær en ég hendi einum pistli í þetta til öryggis fyrir þá sem eru ekki daglegir gestir þar.

Umfjöllunin er mjög ítarleg og greinilegt að hátt settir aðgerðastjórar hafa rætt nokkuð frjálslega við Schmidle. Ýmislegt stingur í stúf við fréttaflutning vikurnar eftir atburðinn sem átti sér stað aðfaranótt 2. maí í vor. Sumt af því nefnir Schmidle sérstaklega en nokkrum öðrum atriðum þykist ég muna eftir. Þrátt fyrir ítarlega frásögn er til dæmis ekki minnst einu orði á tólf ára dóttur bin Laden sem átti að hafa verið á svæðinu. Einn (eða annar) sona hans var hins vegar þarna og féll í átökunum.

Ekkert var heldur fjallað um það í fréttamoldviðrinu í maí (svo ég muni) að Bandaríkjamenn hefðu misst aðra þyrluna sem flutti mannskapinn á svæðið en henni brotlentu þeir hreinlega í gripahúsi í garðinum hjá bin Laden eftir að hafa lent í lofttæmi sem myndaðist vegna hitans og hárra steinveggja umhverfis húsið. Eftirlíkingin af húsinu, sem notuð var til æfinga allan aprílmánuð og staðsett í Norður-Karólínu, var nefnilega bara umlukin venjulegri girðingu með neti sem átti að tákna múrana og hleypti súrefni frekar auðveldlega í gegnum sig.

Ég mæli með greininni sem einstaklega forvitnilegri lesningu um þennan atburð í vor. Hafði til dæmis ekki hugmynd um að dulnefni bin Laden hjá neðanjarðaraðgerðadeildum vestanhafs hefði verið Crankshaft (knastás) allar götur síðan 11. september 2001. Sérstakt.

Athugasemdir

athugasemdir