Ísland er um það bil að setja heimsmet í atburðarás þessa dagana. Hér gjósa hvort tveggja fjöll og fjandsamlegir þingmenn. Ástralskir og japanskir fjölmiðlar fjölluðu um það í dag hvort aldrei ætti af okkur Íslendingum að ganga, á okkur herjuðu samtímis sjóðandi kvika og svört skýrsla. Heilmikið til í því.
Þriðja drepsóttin var reyndar líka til staðar: Ömurlegt málfar í fjölmiðlum. Margendurtekið viðtal RÚV við Bjarna Benediktsson var hreint bull. Bjarni var spurður út í golfferð sína með N1 og einhverjum banka (maður er hættur að muna hvað var Kaupþing, hvað Glitnir og hvað Landsbankinn). Fréttamaður spyr Bjarna út í ferðina og hann svarar: Á þeim tíma fannst mér þetta ekki eðlilegt… Nú? Samt skellti hann sér. Snerist honum þá hugur síðar og tók að þykja förin eðlileg? Af orðalaginu að dæma er það ein fyrsta ályktunin sem maður dregur.
Næst beit fréttamaður höfuðið af skömminni og fór að ræða um Þorgerði Katrínu. Er henni stætt að sitja áfram á þingi? spurði fréttamaðurinn Bjarna. Getur manni verið stætt að sitja einhvers staðar? Annaðhvort er manni stætt á einhverju eða manni er sætt ef málið snýst um að sitja. Hins vegar er flókið að vera stætt á að sitja. Getur manni þá verið sætt á að standa?
Ég get heldur ekki þagað um orðalag stjórnanda vinsæls útvarpsþáttar á Bylgjunni í dag sem var svohljóðandi: Þær fengu sitt hvorn Óskarinn. Ég hef lengi reynt að þegja um þá misnotkun sem beyging óákveðinna fornafna í íslenskum talmiðlum er og reyndar fornafna yfir höfuð en í þessu tilfelli er reyndar um óákveðið fornafn með eignarfornafni að ræða. Það er leitt að vera boðberi þeirrar harmafregnar að orðasambandið sitt hvor er ekki til og kemur með réttu aldrei fyrir. Þær fengu ekki sitt hvorn Óskarinn…hvor fékk sinn Óskarinn. Til hvaða kyns vísar orðið sitt ef eingöngu er kvenkyn í setningunni?
Á sama hátt er ekki hægt að fara sitt hvoru megin við eitthvað heldur fara viðkomandi hvor eða hver sínu megin og menn fá sér ekki sitt hvort glasið heldur fær hvor eða hver sér sitt glas.
Þetta dæmi leiðir mig að ambögunni hvern annan og hvorn annan. Það er aldrei n aftan á óákveðna fornafninu og þarf ekki annað en að breyta orðaröð til að sjá það. Algengt orðalag er þeir börðu hvorn annan. Sé orðaröð breytt og sagt hvor barði annan kemur berlega í ljós að setningin yrði aldrei hvorn barði annan heldur hvor barði annan. Þetta dularfulla n í hvorn er því í raun aldrei til staðar í slíkum samsetningum. Þó falla flestir í þessa gryfju og þá ekki síst fjölmiðlafólk þar sem þó æva skyldi.
Íslendingar, deyjum ekki úr ambögum, úr nógu öðru er að deyja.
-Málnefnd djöfulsins