Betra er seint…

mkata2007.jpgÞað var loksins í dag sem mér tókst að brjóta þykkan ís fjölmargra yfirlýsinga og loforða og hreinlega drulla mér á karateæfingu hjá Lura Karateklubb sem er einmitt hérna í þarnæsta hverfi við mig. Þetta tók tíma og er mín fyrsta nálgun við karate eftir örfáar æfingar hjá Stavanger Karateklubb í fyrravor sem leystu af hólmi þriggja mánaða dvöl hjá tae kwon do-klúbbi sömu borgar þar sem ég hafði mig gegnum tvær gráðanir. (MYND: Margt vatn er runnið til sjávar síðan á ÍM í kata 2007 þar sem ég var…ja, kannski ekki beint ungur en ansi miklu sprækari en núna í kvöld. D-sveit Þórshamars í hópkata, Birkir Jónsson og Magnús Blöndal eru með mér þarna. Those were the days, piltar!)

Lexían er alltaf sú sama þegar maður er búinn að vera lengi í burtu. Núna finn ég ekki fyrir fótunum á mér neðan við hné, ég á ekki eftir að geta gengið fyrir sárum iljum næstu tvo daga, ég er að drepast í höndunum eftir armbeygjur á hnúunum á parketi sem ég hef ekki gert mjög lengi og ég er hálfraddlaus af kiai-ópum. Auk þess er einhver kitlandi tilfinning í biceps femoris vinstri fótar sem verður klárlega orðin að tognun á morgun. Í raun er kraftaverk að ég sitji við tölvu og komi þessum texta frá mér. Þökk sé sennilega banana, feitri blöndu af Pure Brutal Gainer frá Nordic Power og bolla af neskaffi. Það verður athyglisvert að mæta í ræktina í fyrramálið eftir þessi örkuml.

En þetta var gaman. Frábært að koma aftur. Lura Karateklubb státar af snyrtilegri og flottri æfingaaðstöðu, björtum 190  sal og síðast en ekki síst dúndurgóðum sturtum sem er ekki sjálfgefið í neinum hluta Skandinavíu. Þægilegasta staðreyndin var svo að ritúalið (allar hneigingar og inn- og útserimóníur) eru nákvæmlega eins og hjá mínu gamla heimili, Karatefélaginu Þórshamri. Ég var stórhneykslaður á klúbbnum í Stavanger þar sem bara voru teknar standandi hneigingar fyrir og eftir æfingu og lítið gefið fyrir fornan og hefðbundin stíl shotokan karate. Hérna finnst mér ég meira á heimavelli.

Auðvitað var þema þessarar fyrstu æfingar minnar kumite (bardagi) með tilheyrandi núningsviðnámi við parket, höggum og pústrum. Einu sinni þurfti að stöðva æfinguna til að skúra blóð af gólfinu. Lungun höfðu engan veginn undan þessu nýja álagi og hefði mér ekki veitt af einu setti í viðbót síðasta hálftímann. Endað var á styrktarþjálfun sem fólst í endalausum armbeygjum og magakreppum auk þess sem ég þurfti að hlaupa með náunga á bakinu tíu ferðir yfir salinn (og hann svo með mig sem endaði með því að hann hrundi í gólfið blessaður). Við hefðbundnar teygjur í lokin kom svo síðasta áfallið: Það eru örugglega allir á Hrafnistu í Hafnarfirði liðugri en ég er akkúrat núna! Ég á aldeilis vegalengd fyrir höndum ef ég ætla að reyna að komast nálægt fyrra formi.

Maður er þó alla vega kominn af stað og þá er bara að setja sér markmið: 2. dan fyrir fertugt (úff, það er reyndar óhugnanlega stutt þangað til, kannski betra að stefna á fimmtugt, nice round number). Það var altént stemmning að mæta þarna í kvöld þótt það hafi nánast kostað mig stoðkerfishrun, frammistaða þjálfarans minnti um margt á bestu spretti míns ágæta vinar Helga Jóhannessonar sensei, í Þórshamri hér á árum áður (“Ég vil ekki sjá neinn liggja nema ég hafi sparkað í hann!” -HJ, einhvern tímann árið 2002).

Stefnan er sett á næstu æfingu á miðvikudag, best að lýsa því nú rækilega yfir við alla.

Athugasemdir

athugasemdir