Betra er seint en aldrei

almenn myndFátt jafnast á við að komast í helgarfrí, jafnvel þótt það gerist ekki fyrr en klukkan 15 á sunnudegi. Þetta gerðist einmitt í dag eftir skólahelgi númer tvö sem helguð var HMS eða helse, miljø, sikkerhet, hugtaki sem allir þeir sem þekkja haus eða sporð á norskum vinnumarkaði kannast ákaflega vel við. Ég hef rætt um þetta fyrirbæri áður hér, það snýst í stuttu máli um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, líkt og lög númer 46/1980 á Íslandi, en munurinn felst einkum í því hundraðþúsundfalda vægi sem hollustu- og öryggismál þessi hafa hér í Noregi. Sennilega mjög jákvætt en getur orðið dálítið þreytandi stundum. (MYND: Almenna myndin mín sem einhverjir lesendur muna eftir. Stundum á maður bara ekkert æpandi gott með hugleiðingunni. Í baksýn er gamla hverfið okkar í Stavanger, ég fyllist ljúfsárum minningum.)

Ég neita því ekki að á dögum eins og í dag spyr ég sjálfan mig hvað ég hafi verið að hugsa þegar ég lagði út í nám í brønnteknikk. Það krefst alls þess viljastyrks, heilaþvottar og einbeitingar sem finnst í mér að dragast fram úr rúminu klukkan átta á sunnudagsmorgni, fara út í 14 stiga frost og aka til Stavanger vopnaður aðeins viljanum og 300 ml af neskaffi í þar til gerðu akstursíláti (takk Rósa, snilldarjólagjöf) til þess að sitja þar í sex klukkustundir og hlusta á fyrirlestur um helse, miljø og sikkerhet. Þetta verður sérstaklega þungbært þar sem sama fyrirbæri varði átta klukkustundir í gær og fjórar á föstudagskvöldið. Þetta kallar maður helgi!

Núna kemur reyndar sérstaklega langt bil, þrjár vikur, fram að næstu skólahelgi en svo heldur dagskráin áfram aðra hverja helgi fram til aprílloka. Nú fer þetta reyndar að verða skemmtilegt, næstu tvær helgarlotur fara í bortækni og í kjölfarið koma framleiðsla, þrýstistýring í brunni og fleira tæknilegt og praktískt. Samhliða þessu fæ ég að takast á við stærsta óttann í lífi mínu – stærðfræði – og hrafl í efnafræði líka en það er önnur fræðigrein sem ekki náði að heilla mig á grunnskólastigi. Þetta er mjög lærdómsríkt allt saman en ég segi eins og alltaf þegar ég þvælist út í eitthvert nám: Mikið verð ég feginn þegar þessu lýkur. Helgum er mun betur varið til brennivínsdrykkju en daglangra fyrirlestra um olíuvinnslu.

Ný vinnuvika í fyrramálið sem sagt eftir helgi sem var í raun ekki neitt neitt. Ofan á það á ég vaktaviku á kæjanum og fæ því að taka á því langt fram á kvöld alla vikuna og væntanlega að minnsta kosti á laugardaginn líka. Í fjarska glittir í hugsanlegt heilsdagsfrí á sunnudaginn kemur.

Norskir fjölmiðlar fjalla ekki um mikið annað en gíslatökuna í Alsír en samkvæmt glænýjum fréttum sem nú voru að berast frá blaðamannafundi í höfuðstöðvum Statoil er fimm Norðmanna saknað og las Helge Lund, forstjóri fyrirtækisins, nöfn fimmmenninganna upp að höfðu samráði við aðstandendur þeirra. Einn þeirra, Victor Sneberg, býr hérna í Sandnes. Töluvert hefur verið í umræðunni hve skynsamlegt sé fyrir alþjóðleg olíufyrirtæki að reka starfsemi á svæðum þar sem pólitískur óstöðugleiki er slíkur að hópum stigamanna er í lófa lagið að athafna sig nokkurn veginn að vild. Slíkar vangaveltur eiga sennilega fullan rétt á sér og athyglisvert verður að sjá hvernig Statoil tekur á þessu, hvaða breytingar á alþjóðastefnu fyrirtækisins þessi atburður mun hafa í för með sér. Ég þori ekki að spá um það.

Nú kallar rúmið, klukkan að detta í hálfellefu og skynsamlegast að detta út af enda bíður mánudagshnébeygjan klukkan 06:00 í fyrramálið, fersk byrjun vinnuvikunnar.

Athugasemdir

athugasemdir