Ber er hver að baki – brjósklos á Íslandi

Ert þú ekki örugglega ein(n) þeirra sem hefur heyrt minnst á brjósklos í ótal jólaboðum, fermingarveislum og erfidrykkjum, lesandi góður? Sennilega. Ert þú kannski líka í þeim fjölmenna hópi sem telur hiklaust að brjósklos sé annaðhvort eitthvað út á skyr eða eitthvað frekar óþægilegt fyrirbæri sem Óli mágur eða Gunna systir hafa lent í en þú kannt ekki að skýra nánar? Eða ertu í þeim hópi sem hefur fengið brjósklos og upplifað fjörið frá fyrstu hendi eins og sá sem ritar þessa grein? Hverjum þessara hópa sem þú tilheyrir fýsir þig ef til vill að auka þekkingu þína og kannast örlítið við hvað það getur haft í för með sér þegar angi af brjóski tekur að þrýsta á bandvefshring utan um brjóskþófa og áreita um leið taug í nágrenninu með afar lærdómsríkum afleiðingum. Sé svo skaltu lesa áfram.

Hvað er brjósklos þá?brjsklos
Hryggsúla í manneskju er samsett úr 26 smábeinum, hryggjarliðum. Liðirnir eru tengdir saman með þófum úr brjóski sem virka sem eins konar höggpúðar auk þess að vera teygjanlegir og gera hryggnum kleift að hreyfast. Hver þessara þófa er samsettur úr bandvefshring sem liggur utan um hlaupkenndan kjarna. Hryggjarliðirnir mynda göng sem mænan liggur inni í og eru henni til varnar. Taugar ganga út úr mænunni á milli hryggjarliðanna og tengja heilann við mismunandi hluta líkamans.

Brjósklos er það fyrirbæri þegar hlaupkenndur kjarni liðþófa þrýstir á hringinn utan um með þeirri afleiðingu að hann annaðhvort bungar út eða sprungur koma í hann. Þar með veldur hann gjarnan þrýstingi á taugarnar sem ganga út úr hryggjarliðunum og getur ástandið haft veruleg óþægindi í för með sér. Það er því ekki alls kostar rétt að tala um brjósklos því brjóskið losnar í raun ekki.

Leiðniverkur niður í fót
Taugaþræðirnir hætta að starfa eðlilega við þrýstinginn og sá sem svo er komið fyrir fær verki eða skyntruflanir í húð sem geta lýst sér sem dofi eða tilfinningaleysi. Algengast er að brjósklos eigi sér stað í mjóhrygg og þá fylgir því gjarnan leiðniverkur niður í annan fótinn, eftir því hvoru megin hryggjarins þrýstingur er á taug.

Verkurinn þarf alls ekki að vera að miklu leyti í bakinu sjálfu, oftast finnst hann mest í rasskinn, aftanverðu læri og allt niður í kálfa í verstu tilfellunum. Þessu getur fylgt máttleysi í kálfavöðvum. Djöfulskapurinn við verkinn felst fyrst og fremst í því að þolandinn getur varla verið í nokkurri stellingu ef mjög er þjarmað að tauginni. Allra verst er þó að sitja en illskárra að standa eða ganga um.

Meðferð við brjósklosi er ýmiss konar og það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum. Bakið er flókið svæði og ríkt af hreyfi- og skyntaugum enda mætti í raun kalla það miðstöð allra líkamshreyfinga. Þá er mænan ráðgáta eins og Mænuskaðastofnun Íslands benti á í fjáröflunarátaki sínu nýlega. Tilgangur þessa greinarkorns er að varpa dálitlu ljósi á brjósklos, einkenni þess og meðhöndlun. Þrír viðmælendur voru teknir tali, þau Aron Björnsson, heila- og taugaskurðlæknir, Bergur Konráðsson kírópraktor og Edda L. Blöndal sjúkraþjálfari. Þau nálgast brjósklos og aðgerðir gegn því hvert frá sínu fræðasviði og ræða hér hvernig sú nálgun blasir við þeim.

Erfðaþátturinn mikilvægastur
‘Ég held að orsakir brjóskloss séu erfðir, sá þáttur skiptir örugglega mestu máli,’ segir Aron Björnsson, yfirlæknir á heila- og taugaskurðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Aron lauk læknanámi við Háskóla Íslands árið 1979 og stundaði að því loknu framhaldsnám í heilaskurðlækningum í sex ár við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Hann hefur starfað á heila- og taugaskurðdeildinni síðan 1988 og sem yfirlæknir undanfarin þrjú ár.ager 007

Aron kemur inn á fleira sem hann telur hafa áhrif á tíðni brjóskloss og nefnir þar m.a. reykingar sem gera það að verkum að smáæðar eigi erfitt með að flytja næringarefni til liðþófans sem þar með hrörni fyrr. Vaxandi hreyfingarleysi hefur líka þýðingu. Hann segist þó sannfærður um að erfðaþátturinn hafi mest að segja og gerir lítið úr þeirri lífseigu kenningu brjósklossjúklinga að álag á bak hafi mest áhrif: ‘Það er mjög algengt að maður fái til sín fólk sem segist hafa unnið erfiðisvinnu sem börn og þess vegna sé það komið með brjósklos en ég held að það sé ekki skýringin. Ég held að vinna eða bakáreynsla sé á margan hátt, að minnsta kosti í ákveðnu hófi, af hinu góða. Þá styrkir maður vöðva baksins og fær góðan stuðning við hryggsúluna,’ útskýrir Aron og bætir því við að auðvitað geti sú staða komið upp að fólk fái brjósklos til dæmis í kjölfar slyss en þá sé ástand liðþófa gjarnan orðið bágborið fyrir og þurfi oft ekki nema lítið álag til að hrinda öllu af stað.

Aron segir brjósklosaðgerðir hafa verið að breytast úr því að vera talsvert mikið stærri aðgerðir yfir í að verða aðgerðir með minni skurðum og minna blóðtapi. Með stórbættri smásjártækni hafi skurðlæknar verið að ná mikilli leikni í að gera enn betri aðgerðir á enn styttri tíma en áður. ‘Fólk fer fyrr á fætur, gjarnan samdægurs, og sums staðar er það þannig að fólk fer heim að kvöldi eða að öðrum kosti að morgni daginn eftir eins og það er oftast hjá okkur. Fyrir nokkuð mörgum árum voru þetta einhverjir dagar og þar á undan enn lengri tími,’ segir Aron og rifjar upp árdaga smásjáraðgerða á Íslandi upp úr 1980 en þá urðu íslenskir læknar með þeim fyrstu í heiminum til að tileinka sér smásjártæknina og hafa að sögn Arons verið mjög afkastamiklir í þessum skurðaðgerðum æ síðan.

Ein til tvær aðgerðir á dag

Aron segir þau íslensku sjúkrahús sem framkvæmi aðgerðir af þessu tagi vera algjörlega samkeppnisfær við það sem best gerist í heiminum, hér séu gerðar 300 – 500 slíkar aðgerðir árlega, kannski einhvers staðar nálægt 400, rúmlega ein á dag, sé tekið ársmeðaltal. ‘Lengi vel var verið að gera þessar aðgerðir á bæklunarskurðdeildunum á Hringbraut og í Fossvogi en nú eru nánast allar þessar aðgerðir gerðar á heila- og taugaskurðdeildinni í Fossvogi. Á FSA [Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri] hafa þessar aðgerðir einnig verið framkvæmdar.’

Endurtíðni brjósklosa er á bilinu 6 – 12 prósent og er þá átt við þá sem fá brjósklos aftur síðar. ‘Flestir fá brjósklos á sama stað en aðrir fá brjósklos annars staðar, til dæmis á hæðinni [liðnum] fyrir ofan eða neðan, jafnvel hinum megin miðað við fyrri aðgerð. Langoftast verða brjósklosin á þremur neðstu liðbilunum í mjóbakinu, u.þ.b. 95% brjósklosa,’ útskýrir Aron. Hann segir sjaldgæft að gera þurfi aðgerð í þriðja sinn á sama stað og verulega sjaldgæft að það gerist oftar. ‘Mér telst til að 7.500 brjósklosaðgerðir hafi verið gerðar á síðustu 25 árum. Það eru því margir sem leita til okkar með ýmsar kvartanir tengdar baki og verkjum sem reynt er að liðsinna á sem bestan hátt á göngudeild eða í símatímum á Landspítalanum,’ segir Aron. Talið berst að brjósklosi í hálsi og gerviliðþófum sem farið er að setja í háls í stað hinna meðfæddu þófa. Þetta er fyrirbæri úr títaníum og úretani sem grær við liðbolinn fyrir ofan og neðan og er vökvagegndræpt. Hérlendis hefur 50 slíkum liðum verið komið fyrir í hálsi undanfarið rúmt ár með góðum árangri. Þörfin fyrir sambærilegar lausnir í mjóbaki hefur ekki verið talin skipta sköpum og hefur ekki verið tekin upp enda árangur af hinni hefðbundnu brjósklosaðgerð mjög góður, að sögn Arons.

Bakverkur enginn brjósklosverkur

Aron telur mikilvægt að það komi fram í umræðu um brjósklos hve algengt það sé að fólk telji sig þjást af brjósklosi þegar eingöngu sé um bakverk af ýmsum öðrum toga að ræða. ‘Menn eru stundum með brjósklos á segulómmynd en ekki endilega með sérstök einkenni um það eins og sáran leiðniverk niður í kálfa, dofatilfinningu og máttleysi. Bakverkur er enginn brjósklosverkur, bakverkur hefur í sjálfu sér ekkert með brjósklos að gera nema óbeint af því að fólk fer að beita sér vitlaust,’ segir hann. Algeng vinnuregla hjá skurðlæknum sé að bíða í 8 – 12 vikur og sjá hvort viðkomandi verði betri sem oftast sé raunin. Þetta sé þó langt í frá alltaf tilfellið og sjúkling, sem er með mikil taugaeinkenni eða batnar seint og illa, þurfi stundum að laga með skurðaðgerð áður en hugsanlegur taugaskaði verður.

‘Í einstaka tilfellum getur brjósklos orðið mjög stórt og alvarlegt og klemmt að mörgum taugum niður í fætur eða til þvagblöðru með alvarlegum afleiðingum og þá þarf oft að gera bráðaaðgerð. Þessi stærsti hópur fólks sem kemur vegna bakverkja eingöngu á ekki erindi í aðgerð heldur hinir sem eru með mikla og slæma leiðniverki niður í læri og kálfa ásamt stundum dofa og máttleysi í fætinum. Síðan vill maður að myndgreiningin styðji við greininguna, það er að segja að viðkomandi sé með breytingar á myndinni á réttum stað miðað við einkennin,’ útskýrir Aron og tekur það fram að til dæmis komi fyrir brjósklos við myndgreiningu öfugu megin miðað við einkennin eða á liðbili sem ekki passar og þá sé ekki líklegt að aðgerð sé viðkomandi gagnleg. ‘Það að finna sjúklinginn sem best hentar í aðgerð er lykillinn að góðum bata. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að sjúklingar fari í þessar aðgerðir sem ekki hafa af þeim gagn.’

Samkeppnin við verkjalyfin
‘Menn eru óþolinmóðari í dag, sjúklingarnir líka. Það eru allir í vinnu og rosalega stressaðir og menn eru oft ekkert tilbúnir til að vera lengi frá vinnu,’ segir Aron þegar talið berst að öðrum úrræðum en uppskurði. Þeim mun öruggari sem aðgerðirnar verði og því fyrr sem sjúklingurinn geti snúið á ný til vinnu því samkeppnisfærari verði skurðlæknar á þessum vettvangi við alls kyns verkjalyf og önnur meðferðarúrræði. ‘Ef við fáum til okkar einstakling sem er afar illa haldinn og óvinnufær og við vitum að við getum lagað en hin leiðin sé sú að bíða í allt að tvo til þrjá mánuði með verkina og jafnvel þurfa samt að fara í aðgerð að loknum þeim tíma þá velja flestir aðgerðarleiðina. Aðgerðin er þá framkvæmd og viðkomandi getur verið kominn í vinnuna eftir nokkra daga, í besta falli annars eftir 2 – 4 vikur,’ segir Aron enn fremur og bætir því við að margir fari til sjúkraþjálfara eða kírópraktora í meðferð sem oft hjálpar. Flestir lagist þó af sjálfu sér með náttúrulegum bata.  Aron segist ákaflega frjálslyndur gagnvart allri meðferð svo lengi sem fólk fái bót sinna meina.ager 012

Í mörgum tilfellum sé þarna um góða meðferðaraðila að ræða en hann viti líka dæmi um brjósklos þar sem meðferð hjá sjúkraþjálfara eða kírópraktor hefði ekkert að segja. ‘Einn gengur fullfrískur út frá sínum kírópraktor eða sjúkraþjálfara en aðrir fá ekki bót. Sama á við um skurðaðgerðina, hún á langt frá því alltaf við. Þessi verkjavandamál eru margslungin. Svo eru allir jafnvel færðir undir sama hatt, einn lagast við ákveðna meðferð og þá ætlast næsti til að sama gildi um hann en svo þarf ekki að vera því að hans vandi var svolítið annars eðlis,’ segir Aron. ‘Ég held að það sé oft verið að þakka fólki bata sem ekkert á í honum. Náttúrulegi batinn er það sem skiptir mestu máli. Líkaminn hefur tilhneigingu til að laga sig sjálfur, þessi bráði vandi ef menn fá slæmt brjósklos og leggjast í rúmið þýðir það að maður á að fara fljótt á fætur og eyða minni tíma í rúminu, labba meira og passa sig að grotna ekki niður,’ útskýrir Aron og segir að hlutum á borð við uppbyggingu vöðva geti enginn sinnt nema viðkomandi sjálfur og göngutúr sé alveg áreiðanlega besta þjálfunin þegar að bakverkjum kemur.

Hann bætir því við að oft sé búið að reyna alls konar hluti áður en fólk leggist á skurðarborðið og við því sé í raun ekkert að segja. Mikilvægt sé þó að greining fáist fljótt og möguleg meðferðarúrræði liggi fyrir. ‘Við þekkjum það frá löndum í kringum okkur þar sem er langur biðtími eftir að komast í tölvusneiðmynd og fá staðfesta greiningu. Svo líður kannski heilt ár þar til menn komast að hjá þeim sérfræðingi sem á að gera aðgerðina ef til hennar þarf að koma. Mér finnst sú meðferð slöpp og Íslendingar láta ekki bjóða sér þann seinagang. Eftir langavarandi slæm einkenni þar sem einstaklingar eru frá vinnu í 1 – 2 ár vegna biða eftir aðgerð er líklegt að margir verði öryrkjar og detti út af vinnumarkaðnum endanlega. Þetta viljum við ekki sjá hér á landi og hefur Landspítalinn ávallt getað boðið upp á aðgerðarþjónustu með litlum fyrirvara. Ekki má heldur gleyma því að ef of seint er brugðist við getur í einstaka tilfelli hlotist af varanlegur taugaskaði sem truflar leik og starf viðkomandi í framtíðinni,’ segir Aron.

Sálfræði skurðlæknisins
Hann segist langt frá því treysta sér til þess í öllum tilfellum að segja hvað gagnist og hvað gagnist ekki. Þeir sem vinni að þessum málaflokki viti ágætlega hver af öðrum og allir starfi samkvæmt sinni bestu samvisku. ‘Langflestir sem koma til okkar á göngudeild eru ekki með brjósklos en standa jafnvel í þeirri meiningu að þeir séu með það og þurfa aðra meðferð, til dæmis hjá kírópraktor eða sjúkraþjálfara. Oft er besta meðferðin við bakverk að styrkja sig með göngu, það þarf ekki að kosta mikið en maður verður þá að ganga reglulega og auka vegalengd og takt. Þetta reynist mörgum erfitt, fólk er í vinnu og upptekið í öllu mögulegu. Sumir gera ekkert nema þeir séu píndir í það eða hvattir til þess. Sjúkraþjálfarar t.d., fyrir utan það að útbúa æfingaprógramm, hvetja, leiðbeina og hafa oft tíma til að tala og útskýra sem skiptir ekki litlu máli,’ segir Aron, inntur eftir því hvernig samspilið sé milli þessara ólíku en þó líku stétta, lækna, sjúkraþjálfara og kírópraktora.

Aron segir bakvandamál almennt vera gríðarlega algeng í hinum vestræna heimi. Allar upplýsingar sem miði að því að eyða óvissu sjúklings og gera honum ljóst hverjir möguleikar hans séu í stöðunni hljóti að vera af hinu góða. Allt sé betra en að komast að því að vanda sjúklingsins hefði verið hægt að laga snemma í ferlinu og spara honum þannig þjáningar eða bið mánuðum saman. ‘Oft spila aðrir þættir inn í bakvandamál sjúklings, slys, tognun, gigt, fjárhagsáhyggjur, þunglyndi og allt mögulegt. Þetta er allt pínulítil sálfræði. Þess vegna þarf maður að geta valið ‘rétta sjúklinginn’ til að fá góðan árangur í aðgerð, maður þarf að finna þann sjúkling sem maður lagar og gera ekki aðgerð á hinum. Myndgreiningin er ekki lykillinn að því heldur einkennin,’ segir heila- og taugaskurðlæknirinn Aron Björnsson og lýkur með því spjallinu.

Heilsan kemur innan frá
‘Heilsan kemur innan frá. Kírópraktíkin gengur dálítið út á að hjálpa líkamanum að laga sig sjálfur,’ útskýrir Bergur Konráðsson kírópraktor eða hnykklæknir eins og það hefur verið kallað. Raunar telur Bergur sjálfur hugtakið hnykklækningar ekki alheppilegustu þýðinguna en teflir þess í stað fram hugtakinu liðlækningum sem honum þykir ná betur utan um fræðigreinina en sé þýtt bókstaflega er kírópraktík gríska sem táknar hönd (chiro) og aðgerð eða einhvers konar framkvæmd (praktikós).

Vissulega eru hnykklækningar fræðigrein sem útheimtir margra ára háskólanám. Bergur lauk doktorsprófi frá Palmer College of Chiropractic í Davenport í Iowa árið 1994. Palmer College er elsti kírópraktorskóli heims, stofnaður 1897 af Daniel David Palmer sem jafnframt lagði honum til nafnið. Nám við skólann tekur fimm ár og lýkur með gráðunni doctor of chiropractic.

Í Bandaríkjunum eru læknisfræði og kírópraktík nátengd fög og menntun kírópraktora lögð að jöfnu við gráðu í læknisfræði. Kandídatsár sitt starfaði Bergur á endurhæfingarstofu í Illinois þar sem kírópraktorar og sjúkraþjálfarar sameinuðu krafta sína. Hann tók svo til óspilltra málanna og opnaði stofu hér heima árið 1995 og var t.a.m. fyrsti íslenski kírópraktorinn sem notaði röntgenmyndir við greiningu sína. Síðan Bergur útskrifaðist frá Palmer-skólanum hefur hann sótt námskeið sem tengjast íþróttameiðslum og útlimalækningum en námi kírópraktorsins lýkur í raun aldrei, endurmenntunar er þar ávallt þörf líkt og vits er þörf þeim er víða ratar. Hann rekur nú Kírópraktorstöðina við Sogaveg ásamt Ingólfi Ingólfssyni sem einnig er kírópraktor.

Liðlosun með snöggu átaki
Hryggurinn og taugakerfið er grunnurinn í hnykklækningunum. Dæmigert ferli þess sem leitar til Kírópraktorstöðvarinnar hefst með röntgenmyndatöku, viðtali og skoðun. Hryggsúlan er athuguð gaumgæfilega og staða hryggjarliðanna. Meðhöndlunin sjálf felst í liðlosun en hún er framkvæmd með snöggu átaki sem hreyfir liðinn, stundum með smelli.

Bergur líkir ferlinu við heimsókn til tannlæknis. Þar er almenn tannheilsa sjúklingsins athuguð í stað þess að einblína á eina eða fáar tennur. ‘Þetta er ekki bara verkjameðferð, það er ótrúlega útbreidd skoðun fólks að það sé allt í lagi með það svo lengi sem það er verkjalaust. Hryggsúlan er fyrirbæri sem þarfnast reglulegrar skoðunar, það á ekki bara að kíkja á hana þegar í óefni er komið. ‘Ég finn hvergi til, af hverju ætti ég að gera eitthvað?’ spyr fólk hispurslaust en telur samt sem áður fullkomlega eðlilegt að skipta um olíu á bílnum og gera aðrar fyrirbyggjandi ráðstafanir til að hann þjóni sínu hlutverki,’ útskýrir Bergur.

Hann segir samstarf hefðbundinna lækna og hnykklækna sífellt aukast. Þannig vísi hann sjúklingum sínum á þá lækna sem hann telur helst þörf á meti hann það svo að þeir þarfnist meðferðar annars konar sérfræðings. Eins segir Bergur þeim tilfellum alltaf vera að fjölga að hinir hefðbundnu læknar vísi á Kírópraktorstöðina og þannig sé skilningurinn smátt og smátt að aukast á milli þessara stétta sem himinn og haf aðskildu áður, en færast nú óðum nær hvor annarri í faglegum skilningi.ager 002

Erfiðisvinna ekki næg þjálfun

‘Vandamálið núna er aukið hreyfingarleysi, æ fleiri eyða vinnudeginum fyrir framan tölvuskjá og lyfta engu nema símtólinu. Hins vegar er erfiðisvinna engan veginn næg líkamsþjálfun eins og sumir hafa fyrir satt og fólk þarf hreinlega að eyða miklu meiri tíma í sjálft sig. Fótboltamaður lítur til dæmis ekki svo á að hann þurfi ekkert að æfa bara vegna þess að hann sé alltaf að keppa,’ segir Bergur.

Hann leggur mikla áherslu á að í líkamanum sé aldrei kyrrstaða heldur sé ávallt annað tveggja í gangi, þróun sjúkdóma eða uppbygging heilsu. ‘Lífið er stöðug hreyfing, á hverjum degi ferðu í aðra hvora áttina,’ eins og hann bendir nýjum viðskiptavinum á í kynningarfyrirlestri. Bergur stillir þessari þróun upp á kvarða og á honum miðjum er svokallað þægindasvæði en þá er líkamsástandið þannig að ekkert sérstakt er að angra viðkomandi og hann er verkjalaus. Langt er þó frá því að slíkt ástand segi alla söguna. Þarna er vel hugsanlegt að um falska heilsu sé að ræða og senn fari að bera á einhvers konar truflun á eðlilegri líkamsstarfsemi sem krefjist einhvers konar meðhöndlunar fagfólks. ‘Fyrirbyggjandi eftirlit er því lykillinn að góðri heilsu,’ segir Bergur. ‘Reglulegar heimsóknir eru fyrirbyggjandi og ódýrari þegar upp er staðið.’

Mikilvægast að styrkja bakið heildrænt
‘Þegar brjósklosið er komið er hægt að taka það en tilhneigingin til hryggþófaraskana er að öllum líkindum enn þá til staðar og maður vill reyna að taka á því undirliggjandi vandamáli,’ segir Edda Lúvísa Blöndal sjúkraþjálfari. Edda lauk sjúkraþjálfaranámi frá HÍ árið 2004 og hélt þegar utan til starfsnáms við bæklunarskurðdeild St. Göran-sjúkrahússins í Stokkhólmi. Hún hóf því næst störf hjá Sjúkraþjálfun Kópavogs en færði sig þaðan yfir í Gáska – sjúkraþjálfun þar sem hún hefur starfað síðan.

Edda segir það einna mikilvægast að rétt greining liggi fyrir frá upphafi. Sé um brjósklos að ræða sem hefur verið fjarlægt með aðgerð sé í raun litið svo á að vandamálið vegna brjósklossins sé horfið en enn þá sé til staðar tilhneiging einstaklingsins til hryggþófaraskana, sem brjósklos flokkast undir, og þá sé æskilegt að styrkja bakið á sem allra heildrænastan hátt og vinna með því á undirliggjandi vandamáli.

‘Þá er æskilegt að viðkomandi einstaklingur læri inn á bakið á sér. Hverju ber honum að gera meira af og hvað ber honum að forðast? Styrkja þarf bakið og ekki bara stóru aflvöðvana sem búa til hreyfingu heldur líka djúplægu minni vöðva baksins sem vinna að því að halda stöðugleikanum í því,’ útskýrir Edda. Hún bætir því við að það rými sem taugarnar hafi til að komast út úr mænunni og út í líkamann sé það lítið að þegar einstaklingur hafi aukna tilhneigingu til að fá brjósklos- eða útbungunareinkenni geti hluti skýringarinnar verið sá að þetta bil sé minna en hjá einhverjum öðrum, til dæmis vegna beinabyggingar. Þá geti verið fyrir hendi aukin hætta á einkennum, ekki eingöngu út frá brjósklosi heldur jafnvel vegna bólgu í kjölfar tognunar eða slits í beinagrindinni.

Hundleiðinlegar æfingar
‘Þessir einstaklingar þurfa að átta sig á þeirri tilhneigingu og því í hvaða stöðu bilið minnkar enn þá frekar, við snúninga eða við að bogra, í raun allar aðgerðir sem setja bakið í viðkvæma stöðu gagnvart þessum ákveðnu einkennum. Þá þurfa einstaklingar með sögu um brjóskloseinkenni einnig að læra að hlífa hryggþófunum, t.d. með því að forðast langvarandi setur og endurtekna snúninga. Meðferðin fjallar þá í framhaldinu um að læra að nota bakið rétt og læra að þjálfa þá vöðva sem halda afstöðu hryggjarliðanna gagnvart hver öðrum. Hryggjarliðirnir eiga að vinna sem ein heild, ekki skríða gagnvart hver öðrum,’ segir Edda.

Hún segir bakmeðferð ganga út á að styrkja stöðugleikaþátt baksins. Því miður sé það staðreynd að þessar æfingar séu oft hundleiðinlegar, þær gangi ekki út á átök og svita þar sem árangur sé tiltölulega auðmælanlegur eins og í hefðbundinni líkamsrækt. ‘Það gerir þær óvinsælar og það þarf stóran fræðsluþátt til að skilja tilganginn. Árangurinn er illmælanlegur og felst aðallega í forvörn og lýsir sér oftast í lengri tíma milli verkjakasta og minni verkjum þegar þeir koma. Stór ögrun fyrir okkur sjúkraþjálfara hefur verið að setja þessar æfingar í markaðsvænan búning,’ segir Edda enn fremur og kveður gallann við þetta aðallega vera þann að um leið og sjúklingnum takist að minnka verkina hætti hann meðferð án þess að vandamálið sé endilega leyst.

‘Einnig þarf að koma þeim skilaboðum til einstaklingsins að hann taki þjálfuninni ekki sem tímabilsástandi heldur líti á það sem áframhaldandi verkefni að sinna bakinu. Þá er ég ekki endilega að tala um að hann þurfi að gera æfingar í klukkutíma á dag í 10 – 15 ár heldur bara að halda áfram að sinna bakinu með því að hlífa því sem fer illa með það og nota það rétt,’ útskýrir Edda. Hún segist furða sig á því að hún hitti ítrekað fólk sem gengist hafi undir skurðaðgerð vegna brjóskloseinkenna en ekki verið ráðlagt að leita til sjúkraþjálfara í framhaldinu. ‘Okkar starf með einstaklingum sem hafa sögu um brjósklos eða langvarandi verkjaköst frá baki er fólgið í því að taka á heildrænan hátt á veikleikum í bakinu og auka grunnstyrk í kringum öxul líkamans, mjóbakið. Að mínu mati er það óvarkárt að fara í skurðaðgerð og ætla svo ekki að fylgja henni eftir með endurhæfingu.’

Huglæg meðferð oft eina leiðin
Spjallið snýst að samstarfinu við lækna og aðrar heilbrigðisstéttir og Edda kveður það misjafnt eftir einstaklingum svo sem skilja má. ‘Auðvitað eru sjúkraþjálfarar inni á bæklunarskurðdeildum LSH sem vinna þarft og gott starf en það starf er á bráðastigi. Þeir leiðbeina með byrjunaræfingar en það eru líka algjörar byrjunaræfingar til að gera á meðan fólk er að jafna sig eftir uppskurð. Það gerir  gagn, en takmarkað ef því er ekki fylgt eftir með frekari þjálfun,’ segir Edda um endurhæfingarferlið eftir aðgerð.

Bakvandamál eru að hennar sögn erfið vegna þess hve erfitt geti verið að greina þau rétt, einstaklingsbundin viðbrögð séu ólík og eins verkjaupplifun fólks. Huglæg verkjameðferð sé oft þarfur hluti af meðferðinni en þar er um að ræða heildræna meðferð sem tekur til félagslegra og sálrænna þátta og jafnvel fleiri. Við setjum punktinn við þá niðurstöðu.

Athugasemdir

athugasemdir